Orð tekin úr samhengi

Kristín vill koma á framfæri, að gífurleg aukning sé í …
Kristín vill koma á framfæri, að gífurleg aukning sé í komum hælisleitenda á sl. árum og að afleiðing þess væri m.a. að málsmeðferðartími hjá stofnuninni væri orðinn of langur. mbl.is/Þorkell

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að ummæli sín um hælisleitendur, sem birtust í viðtali við RÚV, hafi verið tekin úr samhengi og þar af leiðandi hafi ekki verið gefin rétt mynd af því sem fréttin snerist um. Innanríkisráðherra hefur óskað eftir skýringum forstjórans.

Greint var frá því í gær að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefði sent Kristínu bréf í gær þar sem hann kveðst ósáttur við ummæli hennar um að að hælisleitendur teldu Ísland fýsilegan kost þar sem málsmeðferð tæki langan tíma og að hér gætu þeir fengið frítt fæði og húsnæði á meðan.

Kristín hefur brugðist við frétt RÚV með því að birta yfirlýsingu á vef Útlendingastofunar. Þar segir að vegna fréttarinnar, sem var birt á fimmtudag með fyrirsögninni „Sækja til Íslands til að fá frítt fæði og húsnæði og uppihald“, vilji hún taka fram að orð hafi verið tekin úr samhengi og gefi því ekki rétta mynd af því sem fréttin snerist um.

„Það sem reynt var að koma á framfæri var að gífurleg aukning væri í komum hælisleitenda á s.l. árum og að afleiðing þess væri m.a. að málsmeðferðartími hjá stofnuninni væri orðinn of langur.

Langur málsmeðferðartími hefur ýmsar óæskilegar afleiðingar í för með sér en þó fyrst og fremst fyrir þá einstaklinga sem sækja um hæli hér á landi og þurfa að bíða allt of lengi eftir að fá niðurstöðu í sín mál með tilheyrandi óvissu. Langur málsmeðferðartími getur því miður einnig haft það í för með sér að einhverjir einstaklingar reyni að misnota þá aðstoð sem stendur hælisleitendum til boða og eru stofnuninni vel kunnar slíkar aðstæður sem skapast hafa hjá nágrannaríkjum okkar.

Að reynslu nágrannaríkjanna hefur það sýnt sig að besta leiðin til að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu er að málsmeðferð sé skjótvirk og sanngjörn,“ segir Kristín.

„Asylum tourism“

„Á síðustu vikum hefur nokkur hópur einstaklinga sótt um hæli hér á landi sem gæti fallið í hóp þeirra sem stundum er kallað „asylum tourism“. Þessir hópar eru oftar en ekki frá ríkjum sem þurfa ekki vegabréfsáritun til að koma hingað til lands eða annarra Evrópuríkja og koma því oftast með löglegum hætti sem ferðamenn. Þá er algengt að einstaklingar úr þessum hópi beri ekki fyrir sig ofsóknir sem ástæðu flótta heldur efnahagslegar ástæður en það er skýrt samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna að einstaklingar sem sækja um hæli vegna efnahagslegra ástæðna falla ekki undir samninginn. Þrátt fyrir það á þessi hópur rétt á vandaðri málsmeðferð með tilheyrandi álagi á málsmeðferðar- og móttökukerfi sem aftur getur aukið á biðtíma þeirra sem sárlega þurfa á vernd að halda,“ segir hún ennfremur.

Innanríkisráðherra mun funda með Kristínu vegna málsins í næstu viku.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert