41 milljón til stjórnarmanna

Tónlistarhúsið Harpa.
Tónlistarhúsið Harpa. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portus, fékk greiddar tæpar ellefu milljónir króna á einu og hálfu ári fyrir stjórnarformennsku í fimm félögum sem öll tengjast Hörpu. Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Ago ehf. (sem rak Hörpuna), fékk þrettán milljónir fyrri sama tímabil.

Þetta kemur fram í svari Jóns Gnarr borgarstjóra við fyrirspurn Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem lagt var fram í borgarstjórn á þriðjudag. Samanlagðar greiðslur til stjórnarmanna í félögum sem tengjast Hörpu námu rúmlega 41 milljón á þessu tímabili.

Öll félög um rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu voru um síðustu áramót sameinuð í eitt félag sem ber nafnið Harpa og verður opinbert hlutafélag.

Fram að áramótum hafa verið rekin nokkur félög undir hatti Hörpu, en þau voru átta og hétu Portus, Totus, Situs, Hospes, Custos, Stæði, Hringur og Ago.

Kjartan óskaði eftir upplýsingum um laun, þóknanir og/eða hlunnindi til stjórnarmanna í öllum þeim félögum, sem tengjast rekstri Hörpu frá 15. júní 2010.

Pétur J. Eiríksson var formaður stjórnar fimm þessara félaga, Portus, Totus, Situs, Hospes og Custos. Þá sat hann líka í stjórn rekstrarfélagsins Ago. Á sautján mánaða tímabili, frá og með maí 2011 og til og með september 2012, þáði hann 10.920.000 í laun. Það jafngildir 642 þúsund krónum á mánuði. Tvö þessara félaga, Custos og Hospes, voru sameinuð Situs í fyrra.

Þórunn Sigurðardóttir var stjórnarformaður rekstrarfélagsins Ago og meðstjórnandi í Portus og fékk hún rúmar þrettán milljónir í laun eða 766 þúsund króna mánaðarlaun.

Um 400 milljóna tap varð á rekstri Hörpu árið 2011. Pétur sagði í fjölmiðlum sl. sumar að eigið fé Portus, eignarhaldsfélags Hörpu, myndi duga fyrir óbreyttum rekstri fram á mitt þetta ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert