Dagur styður Guðbjart

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í dag, að hann styddi Guðbjart Hannesson í formannskjöri Samfylkingarinnar, sem nú stendur yfir.

Tveir eru í framboði í formannskjörinu, Guðbjartur og Árni Páll Árnason. Kosning til formanns Samfylkingarinnar hófst á föstudag og stendur kjörið yfir til mánudagsins 28. janúar, þegar frestur til að skila inn atkvæðum rennur út kl. 18.

Kosningarnar eru rafrænar og eru í gegnum vefsetur Samfylkingar, xs.is. Þeir sem þess óska geta fengið atkvæðaseðil sendan í bréfpósti á lögheimili og þarf beiðni um slíkt að berast skrifstofu flokksins í síðasta lagi kl. 18 á mánudaginn 21. janúar.

Kosningarétt hafa skráðir félagar í flokknum og eru rúmlega 18.000 á kjörskrá. Kjöri formanns verður lýst á landsfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 2. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert