Lögreglunni á Akureyri hafa í dag borist 5-6 tilkynningar frá fólki sem fengið hefur smáskilaboð í síma sinn með upplýsingum um að viðkomandi hafi unnið stóra vinninga í happdrætti og það beðið að senda til baka persónuupplýsingar.
Um sams konar svindl er að ræða og tíðkast hefur í sambærilegum tölvupóstum sem flætt hafa yfir og eru orðnir alþekktir.
Lögreglan segir að þetta sé fólk á öllum aldri og að síðasta tilkynning hafi komið frá eldri karlmanni sem ekki er með skráð farsímanúmer í símaskrá. Það er því óvíst með hvaða hætti þrjótarnir hafa uppi á fólkinu og markhópurinn óljós.
Rétt er að vara fólk við skilaboðum af þessu tagi og ljóst að ef fólk hefur ekki eignast miða í happdrætti að eigin vitneskju er afar ólíklegt að það fái slíka vinninga.
Fyrr í þessum mánuði varaði lögreglan á Suðurnesjum við sambærilegum skilaboðum sem fólki voru að berast og Ríkislögreglustjóri hefur einnig margoft varað fólk við skilaboðum af þessu tagi.