Heildarkostnaður við byggingu tónlistarhússins Hörpu eftir að núverandi eigendur tóku við húsinu er áætlaður 17,5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari Jóns Gnarr borgarstjóra við fyrirspurn Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Í svarinu segir að í áætlunum sem gerðar voru við yfirtöku verkefnisins hafi verið áætlað að kostnaður við að ljúka Hörpu, að meðtöldum fjármagnskostnaði á byggingartíma, yrði um 14.500 millj. kr. miðað við verðlag í október 2008 eða um 16.700 millj. kr. á núverandi verðlagi sé miðað við hækkun neysluverðsvísitölu.
Ákveðið var að á byggingartíma yrði verkefnið fjármagnað með sambankaláni sem síðar yrði endurfjármagnað með langtímafjármögnun. Í síðustu útkomuspá er áætlað að kostnaður við að ljúka Hörpu verði um 17.500 milljónir sem er um 800 millj. kr. meira en upphafleg áætlun þegar tillit hefur verið tekið til verðlagsbreytinga samkvæmt neysluverðsvísitölu. Það er fyrst og fremst óhagstæðari gengisþróun sem þessu hefur valdið.
Þegar útkomuspá var sett fram í febrúar sl var fyrirvari gerður um óútkljáð ágreiningsmál við aðalverktakann ÍAV sem einkum snérist um verðbótaþáttinn. Nú liggur fyrir niðurstaða í því máli sem felur í sér að kostnaðarmatið hækkar um 69
milljónir.
Kjartan bendir á að í þessu svari sé ekki tekið tillit til kostnaðar sem féll til áður en núverandi eigendur tóku við Hörpu í þeim tilgangi að ljúka byggingunni. Þar er um að ræða nálægt 10 milljörðum, sem sú upphæð hefur verið afskrifuð. Hann segir því réttar að tala um að heildarkostnaður við byggingu hússins sé nærri 30 milljörðum.