Karlmaður sparkaði í andlit lögreglumanns þegar hann var að hafa afskipti af honum við skemmtistað í Hafnarfirði í nótt. Lögreglumaðurinn þurfti að leita á slysadeild.
Lögreglunni barst beiðni um aðstoð um kl. 3:45 í nótt frá skemmtistað í Hafnarfirði en þar voru dyraverðir með mann í tökum. Þegar lögreglumenn á vettvangi voru að koma viðkomandi aðila inn í lögreglubifreiðina til þess að ræða við hann lét hann sig falla afturábak inn í bifreiðina og sparkaði með báðum fótum í átt að lögreglumanni sem var að hjálpa honum inn í bifreiðina þannig að lögreglumaðurinn fékk annan fót mannsins í andlitið. Viðkomandi var vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður þegar af honum verður runnið. Lögreglumaðurinn fór á slysadeild en hann kenndi til í andliti eftir sparkið. L2 með málið.
Erill á vakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins í nótt vegna margskonar útkalla sem aðallega tengjast ölvun, hávaða í heimahúsum og veitingastöðum og minniháttar pústra milli manna víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir í nótt grunaðir um ölvun við akstur. Þeim var sleppt að lokinni blóð- og skýrslutöku.
Í nótt fékk lögregla tilkynningu um eld í blaðagámi við Kelduskóla. Slökkvilið sendi dælubíl á vettvang og gekk greiðlega að slökkva eldinn.