Styttir leiðina um tæpan kílómetra

Frá Elliðaárósum.
Frá Elliðaárósum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Framkvæmdir við göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa í Reykjavík eru nú að fara í gang en ætlunin er að þeim verði lokið fyrir haustið eða 30. ágúst næstkomandi. Vegna framkvæmdanna hefur verið komið fyrir sérstakri girðingu framarlega á Geirsnefi en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eiga þær ekki að hafa í för með sér óþægindi fyrir hundaeigendur sem nýta sér svæðið. Tvö hlið verða á girðingunni fyrir gangandi vegfarendur.

„Þessa dagana er verktaki að koma sér fyrir og í beinu framhaldi hefst jarðvegsvinna vegna brúargerðar og síðan steypuvinna. Hugað verður sérstaklega að rofvörnum við ána á framkvæmdatíma og jarðvegsvinnu sem hreyft getur jarðveg út í árósana á að vera lokið fyrir 26. apríl. Jarðvegsvinnu vegna stíga á einnig að vera lokið fyrir þann tíma,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Hann bætir við að engar framkvæmdir verði í maí og fram í júní sem laxagengd geti stafað hætta af.

Gera megi ráð fyrir með aukinni umferð

Framkvæmdin hljóðar upp á gerð göngu- og hjólastíga ásamt tveimur göngu- og hjólabrúm yfir Elliðaárósa við norðurenda Geirsnefs sem fyrr segir en gert er ráð fyrir að nýja leiðin muni stytta vegalengd hjólandi og gangandi vegfarenda á milli Grafarvogs og miðborgar um 0,7 kílómetra. Byggt er á vinningstillögu úr samkeppni sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin efndu til í desember 2011 í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.

„Gert er ráð fyrir aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með það í huga að stuðla að bættu umferðaröryggi og gera leiðina greiðari. Umferð hjólandi og gangandi yfir Elliðaár er mikil og má gera ráð fyrir að hún aukist með tilkomu nýju leiðarinnar,“ segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar um framkvæmdina. Ennfremur kemur fram að lengd brúa verði samtals um 36 metrar og nýir göngu- og hjólastígar um 280 metrar. Þá muni burðarrammar brúnna ná upp í 18 metra hæð.

Heildarkostnaður vegna framkvæmdarinnar er 230 milljónir króna og skiptist hann á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Hlutur Reykjavíkurborgar vegna verksins samkvæmt fjárheimild 2012 er 60 milljónir króna.

Framkvæmdir við göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa í Reykjavík.
Framkvæmdir við göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa í Reykjavík. Reykjavíkurborg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert