Blæðandi þjóðvegur stórhættulegur

Rífa þurfti dekk undan fólksbíl í kvöld til að losa …
Rífa þurfti dekk undan fólksbíl í kvöld til að losa innri bretti sem höfðu rifnað upp vegna tjörunnar.

Lögreglan á Blönduósi telur ekki annað fært í stöðunni en að vara fólk við því að keyra um Þjóðveg 1 í bæði Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum vegna tjörublæðinga í malbikinu. Lögreglu hefur borist tugir tilkynninga um tjón  og þurfi m.a. í kvöld að rífa dekk undan fólksbíl. Tjaran getur ógnað umferðaröryggi.

Höskuldur Erlingsson varstjóri lögreglunnar á Blönduósi segir að ástandið hafi verið slæmt á föstudag, skánað aðeins yfir helgina en sé nú mjög slæmt. „Við erum búin að fá tvær tilkynningar í kvöld um skemmdir á fólksbílum. Þetta er bara stórhættulegt.“

Rifu dekkin undan bílnum

Skemmdir vegna tjörunnar verða bæði á lakki bílsins sem og í hjólabúnaðinum að sögn Höskuldar. „Ég fór að aðstoða fólk áðan þar sem bæði innri brettin að framan höfðu rifnað upp. Það hlóðst svo mikil tjara á dekkin sem fór svo að slást til og skemmdi brettin. Við urðum að rífa dekkin undan bílnum til þess að ná að klippa innri brettin burt svo hann gæti haldið áfram. Bíllinn var mjög skemmdur því það var líkað búið að slást utan á hann.“

Höskuldur hafði nýlokið við að aðstoða fólkið þegar lögreglu barst önnur tilkynning. „Þá hringdi ökumaður sem hafði verið á norðurleið á splunkunýjum bíl, keyrðan 1500 kílómetra, en þá voru komin göt á báðum brettum að framan og þó nokkuð mikið tjón. Og þær skipta tugum tilkynningarnar.“

Eftir að taka afstöðu til bótaskyldu

Vegagerðin setti í kvöld inn tilkynningu um vetrarblæðingarnar á vef sinn þar sem vegfarendum sem lenda í tjóni vegna blæðinganna er bent á að hafa samband við Sjóvá og fylla út tjónaskýrslu. Í framhaldi af því verði tekin afstaða til bótaskyldu. Telur Vegagerðin líklegt að orsakavaldurinn sé samspil þess að undanfarið hefur skipst á þýða og frost samhliða því að mikið hefur verið saltað og sandað.

„Allt þetta þarfnast skoðunar og rannsóknar. Atvik sem þessi eru ekki algeng en erfitt er að bregðast við, ólíklegt er talið að það dugi að sanda þessi blæðingasvæði þótt það virki ágætlega á blæðingar að sumri til. En þær eru allt annars eðlis,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Dekkin missa allt grip

„Við getum ekkert annað en varað fólk við því að vera á ferli á meðan þetta ástand varið því það getur setið uppi með tjón á bílunum sínum. Þannig er bara staðan, það leynir sér ekkert að bílar eru farnir að skemmast verulega út af þessu“ segir Höskuldur. 

Auk skemmda getur tjaran ógnað umferðaröryggi því margir hafa lent í því að þykkt lag af tjöru sest munstrið á dekkjunum sem verða alveg slétt. Höskuldur segir ökumenn finna að þeir missi gripið á veginum. Enn sem komið er er þó ekki vitað til þess að óhöpp hafi orðið í umferðinni vegna þessa.

Vandinn er hins vegar sá að blæðingarnar eru á löngum kafla þjóðvegar númer 1 þar sem umferð er mikil og eiga margir þess ekki kost að fara annars staðar. Að sögn Höskuldar hefur ástandsins orðið vart allt frá Blönduósi til Hrútafjarðar. Hann segir erfitt að ætlast til þess að fólki að ferðast ekki um Hringveginn nema nauðsyn beri til, en það þurfi allavega að vera upplýst um að það geti lent í skemmdum.

„Ég keyrði sjálfur þarna um hluta vegarins í kvöld og þetta er bara eins og hraun. Tjöruklessur um allan veg og ekkert eins og það á að vera.“

Vegagerðin vonast til þess að ástandið batni þegar kólni í veðri. Vegagerðin bendir á að eigendur bíla sem tjara sest á í miklum mæli geti fengið beiðni fyrir þrifum hjá Vegagerðinni. Fara þarf á næstu starfsstöð Vegagerðarinnar og láta skoða bílinn.

Vegurinn að flettast upp

Þykkt lag af tjöru sest í munstrið á dekkjunum sem …
Þykkt lag af tjöru sest í munstrið á dekkjunum sem verða alveg slétt og missa allt grip á veginum.
Tjöruskemmdir hafa orðið bæði á flutningabílum og fólksbílum.
Tjöruskemmdir hafa orðið bæði á flutningabílum og fólksbílum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert