Trúnaðarráð VR samþykkti með miklum meirihluta í gærkvöldi, 43 atkvæðum gegn 2, að framlengja kjarasamninginn.
„Það er mjög þung krafa, bæði á atvinnurekendur og hið opinbera, að halda aftur af verðlagshækkunum á komandi mánuðum,“ segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR. Annars sé stöðugleika á vinnumarkaði ógnað.
Í dag verður því að öllum líkindum gengið frá samkomulagi ASÍ og SA um framlengingu kjarasamninga en til stendur að framlengja þá til 30. nóvember á þessu ári. Að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, og Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, mun undirbúningur fyrir næstu kjarasamninga hefjast sem fyrst. Báðir benda þeir á að aðkoma ríkisstjórnarinnar að samkomulaginu hafi engin verið.