Kosið um ESB 2014 eða 2015?

Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Þjóðaratkvæði um inngöngu í Evrópusambandið gæti farið fram haustið 2014 en það gæti dregist fram á árið 2015 ef einhverjir hnökrar verða á viðræðunum við sambandið. Þetta segir Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, í viðtali sem birt er í dag á fréttavef bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal.

Haft er eftir Katrínu að klára þurfi viðræðurnar við Evrópusambandið hver sem niðurstaða þeirra verði og leggja síðan samninginn fyrir þjóðina. Hún gagnrýnir með hvaða hætti umræðan um Evrópumálin hafi farið fram hér á landi til þessa. Hún hafi byggst á upphrópunum en ekki umræðu um kosti og galla inngöngu í sambandið.

Katrín segist iða í skinninu eftir góðri umræðu um Evrópumálin. Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið til þess að hafa áhrif og geta tekið upp evruna í stað íslensku krónunnar sem sé háð of miklum gengissveiflum og krefjist verðtryggingar. Hún segist vera þeirrar skoðunar að íslenska þjóðin sé of fámenn til þess að halda úti eigin gjaldmiðli.

Hún segist ennfremur telja efnahagserfiðleika evrusvæðisins tímabundna og að Evrópusambandið eigi eftir að finna lausn á þeim. „Þetta eru sterk og stöðug hagkerfi og þau munu komast í gegnum þetta, evran er enn sterk þrátt fyrir að allt þetta sé að gerast.“ Þá hafnar hún því að innganga í Evrópusambandið fæli í endalok íslensks fullveldis.

Viðtalið í Wall Street Journal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert