„Þarf að muna að ég heiti Stúlka“

Blær Bjarkardóttir í dómsal í morgun.
Blær Bjarkardóttir í dómsal í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

„Mestu vandræðin eru þegar ég þarf að skrifa undir eða fer í flug, þá þarf ég að muna að ég heiti Stúlka en ekki Blær,“ sagði 15 ára gömul stúlka, Blær Bjarkardóttir, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í málinu er krafist að úrskurður mannanafnanefndar um að hún megi ekki heita Blær verði ógiltur og viðurkennt að hún megi heita Blær. Þá er farið fram á 500 þúsund krónur í miskabætur.

Eins og venja er fór dómari fram á að Blær gæfi upp fullt nafn, kennitölu og heimilisfang áður en hún gaf skýrslu. Blær gaf upp nafnið Stúlka og spurði lögmaður hennar hvers vegna hún hefði gert það. „Ég myndi telja að ég þyrfti að bera fram rétt skráð nafn í dómsal,“ sagði Blær og bætti við að hún myndi gjarnan vilja heita Blær. „Það er fallegt nafn og falleg saga á bak við það. Ég fæ oft hrós fyrir nafnið.“

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Blævar, rakti málsatvik í upphafi ræðu sinnar. Henni var gefið nafn við skírnarathöfn í Garðabæ árið 1997 af séra Hans Markúsi Hafsteinssyni. Viku síðar kom hann að máli við foreldrana og tilkynnti þeim að nafnið Blær væri ekki skráð sem kvenmannsnafn í mannanafnaskrá og því hefðu átt sér stað mistök. Nafnið gekk því næst til mannanafnanefndar sem úrskurðaði að hún mætti ekki heita Blær þar sem það er ekki kvenmannsnafn. „Blær hefur ætíð heitið Blær innan fjölskyldu og í skóla og ekki valdið henni neinum vandkvæðum. Ef kennarar lenda ekki í vandræðum með nafnið skil ég ekki að nefndin geri það,“ sagði Arnar og að einu vandræðin tengdust greiðslukortum og vegabréfum.

Þá benti hann á að ein kona beri nafnið í þjóðskrá, Blær Guðmundsdóttir, en það fékkst skráð árið 1973. „Óréttlætið er algjört,“ sagði Arnar og einnig að það væri stjórnarskrárvarinn réttur Blævar að fá að heita nafninu. Í Íslendingabók megi finna níu konur sem vilja heita nafninu en fá það ekki skráð í þjóðskrá. Væntanlega séu það mun fleiri konur en níu hafi breytt skráningu sinni úr Stúlka.

Arnar sagði fordæmi fyrir því að bæði konur og karlar beri sama nafnið, til dæmis nafnið Júlí. Í Íslendingabók megi finna fimm karla sem bera nafnið og eina konu.

Ekki geðþótti mannanafnanefndar

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sagði málið einfalt. Mannanafnanefnd hafi úrskurðað eftir lögum, nafnið var ekki á skrá sem kvenmannsnafn og sé ekki kvenmannsnafn. Það er karlkynsorð og sem nafn karlkynsnafn. Þá vísaði hann í athugasemdir með frumvarpi til laga um mannanöfn sem samþykkt var árið 1996 en þar er nafnið Blær tekið sem dæmi.

Í lögunum segir að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn en dreng karlmannsnafn. Það hafi í för með sér að ekkert eiginnafn geti talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. „Þannig er t.d. óheimilt að gefa drengjum nafnið Ilmur og stúlkum nöfnin Sturla og Blær,“ segir svo einnig.

Einar sagði að á þessu sé ljóst að löggjafinn hafni því að hefð sé komin á nafnið árið 1996, enda það tekið sem dæmi. Þá sagði hann að þó svo það beri ekki eins sterkan karlkynshljóm og mörg önnur karlkynsnöfn þá væri það stórt skref fyrir dómstólinn að ákvarða að ekkert sé því til fyrirstöðu að nafn geti bæði verið karlkynsnafn og kvenkynsnafn. Það væri frekar löggjafans að taka á slíkum málum.

Þá sagði hann það ljóst að úrskurður mannanafnanefndar hafi verið samkvæmt lögum og ekkert sem bendi til þess að hefð hafi verið komin á nafnið þegar hann var kveðinn upp. Komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Blær fái að heita Blær sé vikið frá íslenskri nafnahefð og um væri að ræða kaflaskil hvað nafngiftir varðar. 

Einar sagði ákvörðun mannanafnanefndar ekki byggða á geðþótta. „Blær er ekki framandi mannsnafn, það er bara karlmannsnafn. Það er málið.“

Björk Eiðsdóttir og Arnar Þór Stefánsson, lögmaður.
Björk Eiðsdóttir og Arnar Þór Stefánsson, lögmaður. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert