Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, sótti í gær og í dag fund Evrópumálaráðherra ESB og umsóknarríkja. Stefan Fule, framkvæmdastjóri stækkunarmála, tók einnig þátt í fundinum, samkvæmt fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.
Fundurinn fór fram í Dublin en Írland tók við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins um áramótin. Meginumræðuefni fundarins var hvernig efla má lýðræði á vettvangi Evrópusamvinnunnar. Rætt var um leiðir til að auka lögmæti og ábyrgð stofnana sambandsins nú þegar samvinnan er að aukast meðal annars í efnahags- og gjaldmiðilsmálum, og hvernig efla má þátt þjóðþinga og Evrópuþingsins á því sviði.
Í umræðum á fundinum greindi Stefán Haukur frá því hvernig Ísland hefur í umsóknarferli sínu lagt áherslu á gagnsæi og samvinnu við ólíka hagsmunahópa. Hvort tveggja hefur reynst vel og innsýn og reynsla hagsmuna- og félagasamtaka hefur styrkt vinnu við mótun samningsafstöðu Íslands. Sömuleiðis hefur þingið gegnt lykilhlutverki frá upphafi samningavinnunnar, sagði Stefán Haukur. Hann gerði einnig grein fyrir nýlegu samkomulagi ríkisstjórnar um að hægja á samningaviðræðunum við ESB fram að kosningum og útskýrði hvað í því felst.