Ekki er ósennilegt að makríldeilan berist í tal á ráðstefnu samtakanna Arctic Frontiers um samspil stjórnmála og þróunar á norðurslóðum sem nú stendur yfir í Tromsö í Noregi en Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, flytur þar erindi ásamt Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins.
Þetta segir Valdimar Halldórsson, aðstoðarmaður atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is spurður að því hvort gera megi ráð fyrir því að makríldeilan komi til tals á ráðstefnunni. Steingrímur flaug út til Noregs í gær og mun flytja ræðu sína á morgun ásamt Berg-Hansen. Damanaki mun hins vegar tala á ráðstefnunni í dag en ráðstefnan stendur alla þessa viku.
Valdimar segir að ræða Steingríms muni einkum fjalla um hagsmuni Íslendinga gagnvart þeirri hlýnun sem orðið hafi til þessa á Norðurslóðum. Ekki síst þau áhrif sem hún hafi haft á breytt göngumynstur sem aftur tengist óhjákvæmilega makrílnum.