Vilja rafmagn upp í Icesave

Hollenskir stjórnmálamenn vilja skoða þann möguleika að lagður verði sæstrengur frá Íslands til Hollands til þess að flytja þangað íslenskt rafmagn. Hollenski Verkamannaflokkurinn, PvdA, hefur vakið máls á hugmyndinni en hann myndar núverandi ríkisstjórn landsins ásamt hægriflokknum VVD.

Hugmyndin hefur fengið góðar undirtektir hjá þremur stjórnarandstöðuflokkum og hefur talsvert verið fjallað um hana í hollenskum fjölmiðlum að undanförnu. Meðal annars er fjallað um málið á fréttavef RTL-sjónvarpsstöðvarinnar í Hollandi. Þar segir að Íslendingar búi yfir mikilli grænni orku og mun meiri en þeir þurfi sjálfir á að halda. Fyrir vikið séu þeir áhugasamir um að selja umframorku úr landi. Einungis 10% af þeirri orku sem Hollendingar noti sé hins vegar græn.

Rifjaður er upp áhugi breskra stjórnvalda á lagningu slíks sæstrengs frá Íslandi til Bretlands og þess getið að Hollendingar gætu hugsanlega komið að þeim málum. Hvað kostnaðinn varðar þurfi Hollendingar ekki að hafa miklar áhyggjur að því er segir í fréttinni enda skuldi Íslendingar þeim háar fjárhæðir vegna Icesave-málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka