Samanlagður fjöldi úskrifaðra doktora frá íslenskum háskólum og Íslendinga sem útskrifast með doktorsgráðu frá erlendum háskólum hefur aldrei verið meiri en árið 2011, en um 100 manns útskrifuðust með doktorsgráðu það ár. Árið áður voru þetta 79 einstaklingar. Má segja að þróunin hafi verið á þennan veg frá árinu 2000 til 2011.
Þetta kemur fram í samantekt greiningarsviðs Rannís, Rannsóknarmiðstöðvar Íslands um þróun í doktorsnámi á Íslandi á tímabilinu 2000-2011. „Háskóli Íslands hefur útskrifað fólk með doktorsgráður í á þriðja áratug á meðan aðrir íslenskir háskólar hafa brautskráð sína fyrstu doktora á síðustu árum. Íslenskt atvinnulíf nýtur góðs af mannauði og kröftum fólks með doktorsmenntun, enda myndar það grunninn að því rannsókna- og þróunarstarfi sem fram fer á Íslandi og eykur um leið verðmætasköpun og nýsköpun í landinu,“ segir í tilkynningu frá Rannís.
Svipuð kynjahlutföll doktora
Karlar voru um 53% þeirra sem útskrifuðust með doktorsgráðu 2011 en fjöldi karla og kvenna hefur verið mjög svipaður í gegnum tíðina. Árið 2009 voru konur þó nær 60% af útskrifuðum doktorum.
Um helmingur útskrifaðra doktora er með gráðu á sviði heilbrigðisvísinda (32%) eða raunvísinda (29%). Nokkur munur er á kynjum innan raunvísinda en þar eru karlar rúmlega 60% af þeim sem útskrifast með doktorsgráðu. Innan heilbrigðisvísinda er fjöldi karla og kvenna mjög svipaður.
Um 16 manns útskrifuðust úr félagsvísindagreinum, jafn fjöldi karla og kvenna, en af þeim 10 doktorsgráðum sem voru á sviði hugvísinda voru 8 konur sem útskrifuðust. Á sviði verkfræði og tækni útskrifuðust aðeins 12 manns með doktorsgráðu, þar af 9 karlar.
Doktorsnemum fjölgaði 2011
Meðalaldur einstaklinga sem útskrifast með doktorsmenntun er nokkuð hærri meðal einstaklinga í hug- og félagsvísindum en í öðrum greinum. Þetta á sérstaklega við um konur, en karlar eru einnig eldri við útskrift í hug- og félagsvísindum en í öðrum greinum. Meðalaldur í raunvísindum, verkfræði og tækni, svo og í heilbrigðisvísindum er um 30-35 ár hjá báðum kynjum.
Eins og nærri má geta var allmikil aukning í fjölda þeirra sem stunduðu doktorsnám á Íslandi árið 2011 miðað við fyrri ár. Árið 2011 stunduðu um 510 einstaklingar doktorsnám á Íslandi miðað við 470 árið 2010 og 360 árið 2009. Konur voru um 60% af þeim fjölda sem stundaði doktorsnám árið 2011 eða rúmlega 300.
Flestir stunduðu doktorsnám í félagsvísindum, eða um 150 manns og þar af rúmlega 100 konur. Þar á eftir eru flestir í námi í raunvísindum og heilbrigðisvísindum en talsvert færri í hugvísindum og verkfræði. Konur eru rúmlega þrír fjórðu hluti þeirra sem stunda doktorsnám á heilbrigðissviði.