Jóhanna vill breyta nafni Samfylkingar

Margrét S. Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og Jóhanna Sigurðardóttir, formaður …
Margrét S. Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar mbl.is/Ómar Óskarsson

Að loknum landsfundi Samfylkingar mun flokkurinn bera nýtt og lengra nafn ef tillaga Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns og Margrétar S. Björnsdóttur formanns framkvæmdastjórnar fær brautargengi.

Leggja þær til að flokkurinn kallist Samfylkingin - Jafnaðarmannaflokkur Íslands og verði nafnið ritað þannig í lögum flokksins. Hugmyndin virðist m.a. vera sú að þannig megi betur ná til ungra kjósenda, því í greinargerð er vísað til könnunar sem gerð var meðal háskólanema árið 2007 og sýndi að þeir virtust hafa óskýra mynd af því fyrir hvað Samfylkingin stæði.

Jafnaðarstefnan það sem sameinar

Í greinargerðinni rekja þær Jóhanna og Margrét að þegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 á grunni fjögurra stjórnmálahreyfinga hafi verið leitast við að finna nafn sem ekki gæfi til kynna yfirtöku einhverrar þeirra, heldur jafnræði allra. Þannig varð til heitið Samfylking.

„Í dag tólf árum síðar líta flokksfélagar ekki lengur til þess hvaðan þeir komu, heldur hvað það er sem sameinar þá og má með nokkurri einföldun segja að það sé jafnaðarstefnan.“ Með því að birta stefnuáherslu flokksins með skýrum hætti í nafni hans verði Samfylkingin enn fremur með skýrari hætti tengd og staðsett með öðrum jafnaðarmanna- eða sósíaldemókaraflokkum. 

Tillöguna og greinargerð með henni má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert