Klámtakmörkun ekki ritskoðun

Ögmundur Jónasson vill takmarka klámframboð.
Ögmundur Jónasson vill takmarka klámframboð. Rax / Ragnar Axelsson

Ögmundur Jónason, innanríkisráðherra, telur að hugmyndir um að takmarka aðgengi að klámefni ekki vera til marks ritskoðun. Ekki megi setja allt efni undir sama hatt. Í klámiðnaði þrífist ágangir aðilar sem hagnist á misnotkun á fólki.

Innanríkisráðherra hefur falið refsiréttarnefnd að vinna að frumvarpi til breytinga á hegningarlögum í því skyni að spyrna við klámvæðingu. Kanna á hvort varsla á klámi verði bönnuð, en einnig hvort hægt verði að gera lögreglu kleift að loka á dreifingu efnis.

„Ég vil fela refsiréttarnefnd að kanna skilgreiningar á klámi í lögum. Í annan stað að fjallað verði um það með hvaða hætti lögreglan geti framfylgt lögum sem gert verði að takmarka aðgang að klámi,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Illa fyrir okkur komið ef ekki má ræða þetta

Hann kallar eftir yfirvegaðri umræðu um málið. „Ef ekki má ræða bann við ofbeldisklámi sem öllum ber saman um að hafi mjög skaðleg áhrif á ungmenni og geti skýrt tíðni ofbeldisglæpa þá er illa fyrir okkur komið,“ segir Ögmundur. 

Hann vill að áhrif kláms séu kortlögð. „Við erum að tala um mjög áganga aðila sem þröngva sér inn á samfélögin. Ábyrg stjórnvöld hljóta að vilja kortleggja þessi efni. Ég vil fá viti borna umræðu um það hvernig bregðast eigi við þessu,“ segir Ögmundur.

Hann segist finna fyrir því að margir hafi ásakað hann um að vera talsmann ritskoðunar. Hann segir þessu öfugt farið. „Ég verð var við þöggun frá þeim sem vilja ekki einu sinni að þetta verði til umræðu,“ segir Ögmundur.

Ekki hægt að setja allt undir einn hatt 

Aðspurður hvort eðlismunur sé á banni við klámefni og banni við myndbirtingum t.a.m. á Múhameð spámanni telur Ögmundur svo vera. „Ég vil ekki leggja alla hluti undir einn hatt. Ég er ekki gefin fyrir bönn og vil standa vörð um tjáningarfrelsið. En af sama skapi vil ég koma í veg fyrir að gróðaöfl sem einskis svífa í að misnota fólk geti komist óáreitt fram,“ segir Ögmundur. 

Hann segir meðal annars stefnt að því að skilgreina klám sem hugtak. „Sérfræðingar eiga að ákvarða hvort skerpa eigi á skilgreiningum í lögum. Vel má vera að það reynist mjög torvelt. En það er vel þess virði að fá umræðu um þessi efni. En þetta hefur ekkert að gera með tilraunir til ritskoðunar að gera,“ segir Ögmundur.

Aðspurður hvort ekki sé fullreynt út frá laganna bókstaf að skilgreina klám segir Ögmundur það vera „tilraunarinnar virði.“

Takmarka möguleika ágangra aðila að þröngva efni inn á samfélög

Ögmundur telur stjórnmálamenn ekki komna á hálan ís þegar verið sé að velja hvað komi fram á netinu. „Ég held að það sé varasamt að setja allt undir einn hatt. Flestir vilja verja opin samskipti á netinu. Mín nálgun er engu að síður sú að við séum ekki að takmarka aðgengi, heldur takmarka möguleika ágengra aðila að þröngva efni inn á samfélögin,“ segir Ögmundur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka