Mikil aukning á inflúensutilvikum

Við ættum að sjá í lok vikunnar hvort við séum …
Við ættum að sjá í lok vikunnar hvort við séum að nálgast toppinn,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Ásdís Ásgeirsdóttir

Veruleg aukning varð á inflúensutilvikum í síðustu viku. Faraldurinn hefur ekki náð hámarki, en um er að ræða þrjá stofna. Fólk á öllum aldri og um allt land greinist með inflúensu. Þeir sem voru bólusettir við svínaflensu veturinn 2009-2010 þyrftu að huga að nýrri bólusetningu.

„Við sáum mikla aukningu á tilfellum í síðustu viku, en ekki tvöföldun eins og var í vikunni þar á undan,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. „Við ættum að sjá í lok vikunnar hvort við séum að nálgast toppinn. Þetta verður bara að sýna sig.“

Yfirleitt koma einkennin strax

Að sögn Haraldar er faraldurinn heldur fyrr á ferðinni núna en undanfarin tvö ár.

Hann segir afar misjafnt hvernig inflúensan leggst á fólk. „Menn verða misveikir, en yfirleitt koma einkennin brátt að og fólk fær strax veikindatilfinningu; hita, beinverki, höfuðverk og hósta. Þetta er allt öðruvísi en kvef sem gjarnan læðist að fólki og það er ekki visst um hvort það sé veikt.“

Haraldur segir að um 280 hafi leitað læknis í síðustu viku vegna inflúensu. En þær tölur segja síður en svo alla söguna. „Við getum hæglega margfaldað þann fjölda með 10-20 til að finna út hversu margir eru alls veikir. Það er nokkuð álitamál við hvað á að miða.“

Aldrei of seint að fá bólusetningu

Þeir sem ekki hafa þegar látið bólusetja sig, geta enn gripið til þess ráðs til að varna veikindum. „Það er aldrei of seint og ég held að flensan eigi eftir að ganga næstu vikur. Við viljum gjarnan að fólk láti bólusetja sig fyrr og byrjum yfirleitt strax í október að hvetja til þess. En þá er enginn veikur og enginn hefur áhuga á því. Við leggjum sérstaklega til að fólk sem er eldra en 60 ára og fólk með undirliggjandi sjúkdóma fái bólusetningu.“

Gætu þurft aðra bólusetningu

Þeir sem fengu bólusetningu við svínainflúensu veturinn 2009-2010 gætu þurft á nýrri slíkri bólusetningu að halda, að sögn Haraldar. „Við erum með þrjá stofna; þessi venjulegi árstíðabundni sem hefur verið hér langa lengi, svínainflúensustofninn sem er farinn að ganga eins og árstíðabundin flensa og svo er það inflúensa B. Bóluefnið er gegn öllum þremur. Það er alveg klárt að bóluefnið sem var gefið 2009-2010 var býsna gott. En það er eins og önnur bóluefni, smám saman dregur úr virkni þess.“

Fjölmargir fengu bólusetningu gegn svínainflúensu veturinn 2009-2010. Þeir þurfa að …
Fjölmargir fengu bólusetningu gegn svínainflúensu veturinn 2009-2010. Þeir þurfa að huga að annarri bólusetningu. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert