Svo gæti farið að 13-15 flokkar verði í framboði til alþingiskosninga nú í apríl. Framboðsfrestur rennur út á hádeginu hinn 12. apríl.
Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hefur fimm nýjum framboðum verið úthlutað listabókstöfum. Það eru Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar (C), Hægri grænir, flokkur fólksins (G), Bjartsýnisflokkurinn (E), Björt framtíð (A) og Húmanistaflokkurinn (H).
Þá eru umsóknir þriggja annarra framboða í vinnslu hjá ráðuneytinu. Dögun hefur óskað eftir bókstafnum T en vinnsla á umsókn þess flokks er á lokastigi. Þá hefur Framfaraflokkurinn sent inn meðmælendalista en óvíst er með listabókstaf hans. Píratar hafa einnig skilað inn sínum lista og hafa óskað eftir stafnum Þ.
Þá segir Vésteinn Valgarðsson, sem situr í bráðabirgðastjórn Alþýðufylkingarinnar, að flokkurinn skili inn umsókn um listabókstaf á næstu dögum.