Flugáhafnir víða í Evrópu mótmæla í dag boðuðum reglum Evrópusambandsins um flug-, vakt,- og hvíldartíma flugmanna og flugliða samkvæmt fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna.
„Fulltrúar frá evrópskum flugmannafélögum koma saman við höfuðstöðvar Evrópuþingsins í Brussel í dag og afhenda þar áskorun sem um 100.000 manns hafa skrifað undir, þar sem þess er krafist að vinnutímareglur verði settar með öryggi flugfarþega í öndvegi og á grundvelli læknisfræðilegra rannsókna,“ segir í tilkynningunni.
Ennfremur segir þar að samkvæmt fyrirliggjandi tillögu sé gert ráð fyrir að flugáhafnir geti verið allt að 20-22 klukkustundir á vakt í einu og vinni í meira en 12 klukkustundir að næturlagi. Nokkrir flugmenn í FÍA muni af þessu tilefni koma saman á Keflavíkurflugvelli í dag til þess að vekja athygli flugfarþega á málinu.