„Svakalegt að lenda í svona“

Skemmdir á bifreið vegna blæðinga á slitlagi.
Skemmdir á bifreið vegna blæðinga á slitlagi.

„Við fór­um og skoðuðum þetta í gær og vor­um að reyna að átta okk­ur á því hvaðan þetta kæmi og hvaða kafl­ar þetta eru. Við erum bún­ir að kort­leggja þetta nokkuð vel og erum að fara yfir málið. En það eru eng­ar patent­lausn­ir á þessu, það er bara þannig,“ seg­ir Ein­ar Gísla­son, deild­ar­stjóri Vega­gerðar­inn­ar á Sauðár­króki.

Eins og mbl.is hef­ur fjallað um hafa mikl­ar blæðinga átt sér stað und­an­farna daga á slit­lagi einkum og Vest­ur- og Aust­ur-Húna­vatns­sýslu. Hafa þær valdið skemmd­um á bif­reiðum auk þess að skapa mikla hættu fyr­ir veg­far­end­ur en tjöruköggl­ar hafa borist með bif­reiðum og dreifst um vegi.

Vega­gerðin hef­ur sent frá sér til­kynn­ingu þar sem fram kem­ur að ekki liggi ná­kvæm­lega fyr­ir hvað valdi þess­um blæðing­um en lík­leg­ast sé að þar komi við sögu sam­spil ým­issa þátta og þá ekki síst veðurfar. Ekki síst að skipst hef­ur á þýða og frost. Spurður að því hvort hugs­an­legt megi rekja blæðing­arn­ar til þeirra efna sem notuð hafi verið við lagn­ingu slit­lags á veg­ina seg­ir Ein­ar að það sé eitt af því sem sé í at­hug­un.

„Það er eitt af því sem verið er að skoða en það er ekk­ert komið út úr því í sjálfu sér. Þess­ar vetr­ar­blæðing­ar eru þekkt­ar en ekki eins og verið hef­ur að þessu sinni. En það var verið að breyta um svo­kallað mýk­ing­ar­efni í klæðning­una. Við vor­um að nota White Spi­rit sem mýk­ing­ar­efni. Síðan var farið að nota repju og svo aft­ur lýsi sem mýk­ing­ar­efni,“ seg­ir hann.

Ein­ar seg­ir að meðal ann­ars sé verið að at­huga hvort tengsl séu þarna á milli en hins veg­ar sé ekk­ert hægt að full­yrða um það á þess­ari stundu. „Það er bara eitt af því sem við erum að skoða. Síðan er verið að kanna hvað sé hægt að gera til þess að draga úr þessu. En þetta er nátt­úru­lega bara svaka­legt að lenda í svona. Mjög óskemmti­legt. “

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert