Þolinmæði framhaldsskólakennara er á þrotum

Frá útskrift úr framhaldsskóla.
Frá útskrift úr framhaldsskóla. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Framhaldsskólakennarar hafa þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er uppi í framhaldsskólum landsins. Bæta þurfi kjör kennara og verja auknu fé til skólanna, sem hafa þurft að búa við samfelldan niðurskurð undanfarin sjö ár, frá árinu 2006.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var einróma á fundi Félags framhaldsskólakennara sem haldinn var í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 17. janúar.

„Vinnuálag kennara hefur aukist mikið síðustu misseri sem meðal annars birtist í sístækkandi nemendahópum en algengt er að námshópar í framhaldsskólum telji á fjórða tug nemenda. Hér er um að ræða þróun sem hugnast ekki kennurum enda draga stórir námshópar og skert fjárframlög úr gæðum skólastarfsins og hamla framþróun,“ segir í ályktuninni.

„Þolinmæði framhaldsskólakennara er á þrotum og ljóst að við núverandi ástand verður ekki lengur unað. Almennur félagsfundur í Félagi framhaldsskólakennara krefst þess að kjör og starfsskilyrði framhaldsskólakennara verði tafarlaust bætt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert