„Kvótakerfið er orðin slitin flík. Sífelldar breytingar og stöðugt stag í götin hefur gert kerfið svo flókið, að erfitt er að hafa yfir það sýn. Útdeiling á kvótum og leyfum og sala þeirra eru stöðugt deilumál, talað er um að setja allt á uppboð, þar sem vel fjármagnaðir aðilar hefðu að sjálfsögðu yfirhöndina, en það er aðeins óánægjan, sem vex.“
Þetta segir í tilkynningu frá Hægri grænum þar sem stefna flokksins í sjávarútvegsmálum er kynnt en hann vill meðal annars gefa handfæraveiðar frjálsar innan ákveðins veiðitíma, koma á veiðidagakerfi í botnfiskveiðum óháð tegundum og magni og aflamarkskerfi fyrir uppsjávarveiðar. Þá verði útgerðum gert að skila inn veiðileyfum sínum hætti þær störfum og framsal og veðsetningar verði óheimilar. Ennfremur verði að landa öllum afla að viðlögðum leyfismissi.
Fram kemur að Hægri grænir voni að „núverandi kvótahafar taki þessu vel, enda er ekki verið að taka neitt af þeim, heldur er í raun verið að rýmka möguleika til veiða. Hugsanleg veðbönd og eignfærslur einstakra útgerða eru atriði, sem koma opinberri stjórnun fiskveiða ekki við og eiga ekki gera það og engin bótaskylda er í spilunum.“