„Við áttum ágætan fund seint í gær á Landspítalanum. Það má segja að þar hafi myndast glufa sem jók bjartsýni mína á að samningar náist fljótlega,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Þar var okkur líka afhent og kynnt minnisblaðið sem var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær um að rétta hlut kvennastétta,“ segir Elsa.
Spurð að því hvað hafi komið fram á fundinum segir Elsa ekki tímabært að skýra frá því. „En báðir aðilar lýstu yfir vilja til að klára þetta hratt og vel. Það var ekkert ákveðið, en ég vona að við náum fundi sem allra fyrst aftur.“
Elsa segir að æskilegt væri ef samningar næðust fyrir næstu mánaðamót því þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa sagt upp séu þegar farnir að gera ráðstafanir varðandi önnur störf. „Auðvitað er fólk farið að skoða og jafnvel festa sig annars staðar. Eftir því sem nær dregur verða fleiri búnir að gera aðrar ráðstafanir.“
Gangi uppsagnir tæplega 300 hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum eftir er ljóst að ófremdarástand mun skapast þar. Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, sagði í samtali við mbl.is í gær að ekki yrði hægt að fylla í skarð þeirra með skipulagsbreytingum vegna þess hversu störfin væru sérhæfð.
Ekki liggur fyrir hvenær næsti fundur deiluaðila verður haldinn, en Elsa segist vonast til þess að það yrði annaðhvort í dag eða á morgun.