Brotthvarf Jóns hefur engin áhrif

Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir Ómar Óskarsson

Sú ákvörðun Jóns Bjarnasonar alþingismanns að segja sig úr þingflokki VG veikir hvorki þingflokkinn né dregur það úr getu ríkisstjórnarinnar til að afgreiða mál, að mati Álfheiðar Ingadóttur, þingflokksformanns VG.

Álfheiður var við störf sem varaformaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við hana á ellefta tímanum í kvöld. Unnið var í stjórnarskrármálinu og sagði Álfheiður stefnt að því að stjórnarskrárfrumvarpið fari í þingið í næstu viku. Allir þingmenn hefðu náð að segja álit sitt á frumvarpinu og allar nefndir nema þingskaparnefnd, sem ekki sé fastanefnd á Alþingi.

„Það er mjög viðamikil og góð vinna sem liggur hér að baki. Það hefur tekist, sem var markmiðið, að hver einasti þingmaður hefur sannarlega komið að þessari mikilvægu umfjöllun í nefndunum. Ráðherrar eru ekki í nefndum en þeir koma að þessu í þingflokkunum.

En í reynd eru allir þingmennirnir í nefndum hér og markmiðið var að virkja sem flesta í þátttöku í umræðum og ákvarðanatöku og það hefur tekist og ég fæ ekki annað séð en að þingmenn almennt séð séu mjög ánægðir með þetta verklag. Það skilar sér í viðamiklum og góðum álitum og tillögum í mörgum tilvikum.“

Breytir ekki stöðu þingflokksins

- Hefur brotthvarf Jóns áhrif á stöðu þingflokksins og stöðu VG?

„Nei. Þetta hefur engin áhrif á stöðu þingflokksins.“ 

- En hefurðu áhyggjur af því að brotthvarf hans hafi áhrif á þau mál sem ríkisstjórn vill ná í gegn?

„Nei.“

- Þannig að þetta veikir ekki stjórnina, að þínu mati? 

„Nei.“

- Hvað viltu annars segja í tilefni af brotthvarfi Jóns?

„Það er ekkert meira um það að segja. Þetta er hans ákvörðun og hún var ekki borin undir mig eða aðra þannig að ég hef ekkert um hana að segja. Hann stendur fyrir sínum ákvörðunum í þessu eins og í öðru.“

Ekkert leynisamkomulag

- Samkvæmt mínum heimildum gerðu stjórnarflokkarnir með sér samkomulag helgina 19.-20. janúar sem fólst m.a. í því að gegn því að hægt yrði á ESB-viðræðum, að kröfu VG, myndi VG styðja afgreiðslu stjórnarskrármálsins fyrir þingfrestun 15. mars, þrátt fyrir fjölda athugasemda. Er þetta rétt?

„Þetta er þvættingur, venjulegur spuni. Við höfum stefnt að því allan tímann að ljúka umfjöllun um stjórnarskrármálið fyrir kosningar. Það hefur alltaf legið fyrir. Það þarf ekki að gera neitt samkomulag um það. Það var gert í upphafi kjörtímabils,“ segir Álfheiður Ingadóttir.

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert