„Það er ekki gefið að hægt verði að ráða á einfaldan hátt í niðurstöðu dómstólsins. Við gætum unnið málið og þá liggur það alveg ljóst fyrir. Hitt er snúnara ef einhvers konar áfellisdómur fellur yfir Íslandi. Þá er hægt að sjá fyrir sér mjög ólíka þýðingu eftir því hver efnisatriði dómsins verða.“
Þetta segir Árni Páll Árnason, fyrsti varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis. Á fundi nefndarinnar í gær var rætt um viðbúnað stjórnvalda vegna dómsuppkvaðningar í Icesave-málinu hjá EFTA-dómstólnum á mánudag.
Málsvarnarteymi Íslands kom á fund nefndarinnar og segir Árni Páll að það sé viðbúið því að taka á móti dómnum og greina hann. Mikilvægt sé að stjórnvöld fái fljótt skýringar á lögfræðilegri stöðu Íslands eftir að dómurinn liggur fyrir.
„Það er hægt að sjá fyrir sér ýmsar afleiðingar, sumar léttvægar, aðrar þungbærari, ef dómurinn telur að Ísland hafi með einhverjum hætti brotið gegn skuldbindingum sínum,“ segir Árni Páll. Erfitt sé að átta sig á því áður en dómur fellur en búið sé að kortleggja slíkar sviðsmyndir.