„Það er alveg ljóst að það umhverfi sem þarna er verið að höfða til er algjörlega framandi fyrir núverandi stjórnsýslu,“ sagði Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, um 15. grein stjórnarskrárfrumvarpsins á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gærkvöldi.
Þá benti Tryggvi á að greinin, sem kveður á um upplýsingarétt fólks og aðgang þess að opinberum gögnum, væri með mjög víðtækt gildissvið eins og hún er sett fram í texta frumvarpsins, að því er fram kemur í umfjöllun um umsögn hans í Morgunblaðinu í dag.
Í umsögn sinni um frumvarpið gagnrýnir Tryggvi m.a. skerðingarákvæðið í mannréttindakafla frumvarpsins en hann telur að það muni væntanlega leiða til þess að heimilt verði að takmarka eða skerða stjórnarskrárvarin mannréttindi í fleiri tilvikum og á öðrum grundvelli en hægt er samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.