Kynjareglur í þágu fyrirmynda

Strákar sjást oftar í Gettu betur liðum.
Strákar sjást oftar í Gettu betur liðum. Myndin er tekin af vefsíðu RÚV

Fyrrverandi keppandi í Gettu betur birti grein í Þjóðarspeglinum árið 2011 með tillögum að úrbótum til þess að auka vægi kvenkyns keppenda. Lagði hún meðal annars til að kynjahlutfall verði jafnað með reglum og að efnisvali á spurningum yrði breytt.

Nokkur umræða hefur skapast um það hve fáar stúlkur eru í lokakeppni Gettu betur. Vilja sumir að gripið verði til aðgerða til þess að jafna þetta hlutfall. Anna Pála Sverrisdóttir lögfræðingur og fyrrverandi keppandi í Gettu betur telur það heppilegt.

Lagði til tékklista

Í grein sem birtist í Þjóðarspeglinum sem er rit félagsvísinda við Háskóla Íslands fjallar hún um Gettu betur út frá sjónarhorni jafnréttismála. „Það þarfnast ekki langrar skoðunar til að sjá að jafnréttismál eru ekki í lagi samanber að endurtekið er ein stelpa í hópi þeirra 24 sem sem keppa í sjónvarpinu,“ segir Anna Pála. 

Anna Pála skoðaði hvað einkenndi keppnina og athugaði hvernig hægt væri að breyta ákvarðanatökum um uppsetningu Gettu Betur í átt að jafnrétti.

Leggur Anna Pála m.a. til að settur verði fram tékklisti sem þeir sem koma að keppninni geti haft í huga og farið eftir áður en valið er í lið. „Til að mynda að skólarnir sjái til þess að allir mæti í Gettu betur prófin. Stelpur hafa ekki fyrirmyndirnar og því eru þær ólíklegri til að hafa áhuga á því að mæta,“ segir Anna Pála.

Jafnframt leggur hún til að gætt verði að kynjahlutfalli, spyrjenda, dómara og stigavarða. 

Spurt um konur í 20% tilfella

Anna tínir fleira til og meðal annars taldi hún hve oft var spurt um karlmenn og kvenmenn í undanúrslitum og úrslitum Gettu betur frá upphafi.

„Það var einungis spurt um kvennöfn í 20% tilfella. Þeir dómarar í Gettu betur sem ég ræddi við telja að það ætti ekki að vera mikið mál að jafna þetta hlutfall án þess að þurfa að bæta við spurningum um handavinnu. Enda held ég að hún höfði ekki til framhaldsskólastelpna,“ segir Anna Pála í gamansömum tón. Sjálf lagði hún til í greininni að spurt verði um hvort kyn að lágmarki í 40% tilfella.

Kynjareglur fyrirmyndanna vegna

Hún segir að hún hafi ekki þurft að leita langt eftir fyrirmynd þegar hún keppti í keppninni fyrir hönd MH. „Það vill svo til að ég hafði sterka fyrirmynd í Ingu Þóru Ingvarsdóttir, trúlega sterkasti kvenkyns keppandanum frá upphafi. Það gerði það að verkum að mér fannst eðlilegt að taka þátt og það getur ekki verið tilviljun að endurtekið hafi verið kvenkyns keppendur í MH. Ég tel það vera vegna þess að þar eru fyrirmyndir,“ segir Anna Pála. 

„Þess vegna er ég sammála þeim röddum sem vilja setja kynjareglur í keppnina. Alveg eins og það eru reglur um aldur. Eins og staðan er núna þá fáum við áhorfendur þá sýn að strákarnir séu klárir á sviðinu en stelpurnar eigi að vera klappandi úti í sal með þau skilaboð til samfélagsins að þær eigi að vera sætar og þegja,“ segir Anna Pála. Lagði hún til í greininni að kynjahlutfall verði jafnað í keppninni til bráðabirgða árin 2013 og 2014. Þannig myndu kvenkyns fyrirmyndir skapast.

Aðspurð hvað hún myndi segja við þá sem segi að með þessu veljist ekki endilega þeir hæfustu í keppnina telur Anna Pála slíkar spurningar undarlegar. „Þessa aðila myndi ég spyrja á móti hvort þeir teldu í alvöru stráka klárari en stelpur. Stelpur fá ekki þau skilaboð að þær eigi að vera besserwisserar og þar liggur hundurinn grafinn,“ segir Anna Pála. 

Anna Pála Sverrisdóttir.
Anna Pála Sverrisdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert