Ég hef alltaf verið bjartsýnn. Ég held að það sé hægt að leysa þetta sem fyrst. Að fólk þurfi ekki að vera í þessari óvissu,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, um stöðu kjaradeilu hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsinu.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við mbl.is í morgun að á samningafundi í gær hefðu verið kynntar tillögur sem gæfu henni tilefni til aukinnar bjartsýni á að deilan leysist fljótlega.
Elsa vildi ekki gefa upp í hverju þær fælust og það vill Björn ekki heldur. „Nei, ég get ekki sagt frá því. En það er verið að skoða ýmsa möguleika.“
Spurður að því hvort til standi að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa, komi til uppsagnanna, segir Björn svo ekki vera.
„Nei, við höfum ekkert skoðað það. Ég held að það hafi verið skoðað hérna fyrir kreppu, en ég held að það væri nokkuð erfitt í framkvæmd. Það þyrfti langan undirbúning. En auðvitað verður það eitt af því sem verður skoðað ef þetta verður þannig að fólk gengur hérna út 1. mars og það næst ekki samkomulag. Það verður eitthvað að gerast til þess að halda uppi eðlilegri starfsemi til lengri tíma litið. En við höfum ekkert farið út í að skoða þetta.“