Aðalmeðferð í svonefndu Al-Thani-máli er fyrirhuguð í apríl. Stutt fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem saksóknari sérstaks saksóknara lagði fram skjalaskrá og dómari tilkynnti meðdómendur í málinu. Enn er óvíst hversu langan tíma aðalmeðferðin mun taka.
Í Al-Thani-málinu eru ákærðir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti stóran eignarhlut í bankanum.
Ekki er fyllilega ljóst hvenær í apríl aðalmeðferð hefst eða hvenær henni lýkur. Sem stendur er þó gert ráð fyrir að hún hefjist 10. apríl og standi til 24. apríl. Það getur hins vegar breyst.
Í dag spurði dómari saksóknara út í vitnalista og svaraði sá síðarnefndi því til að hann væri ekki tilbúinn. Drög að honum yrðu þó send sem fyrst. Vitni í málinu skipta tugum og gera má fastlega ráð fyrir því að reynt verði að leiða fjárfestinn Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani frá Katar fyrir dóminn.
Að öllu þessu loknu var málinu frestað fram í byrjun apríl þegar öll þessi atriði ættu að hafa skýrst.