Hæstiréttur hefur ómerkt tiltekin ummæli sem fram komu í bók Björns Bjarnasonar um Baugsmálið svonefnda. Rétturinn féllst hins vegar ekki á kröfu Jóns Ásgeirs um miskabætur eða kostnað vegna birtingar dóms í málinu. Þá féll málskostnaður niður bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málið snerist einkum um þau ummæli Björns í bók sinni „Rosabaugur yfir Íslandi“, þar sem fjallað er um Baugsmálið svonefnda, að Jón Ásgeir hafi fengið dóm fyrir fjárdrátt í tengslum við það mál þegar hið rétta var að hann var sakfelldur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Björn til að greiða Jóni Ásgeiri Jôhannessyni 200 þúsund kr. í miskabætur, 200 þúsund kr. til að birta forsendur dóms auk þess sem tiltekin ummæli í bók Björns voru ómerkt. Þá var Birni gert að greiða Jóni Ásgeiri fimm hundruð þúsund í málskostnað.
Björn skrifaði á vefsvæði sitt eftir dóm héraðsdóms að hann hefði leiðrétt það sem rangt var í bókinni og birt afsökun vegna þess. „Ég varð við ósk lögmanns Jóns Ásgeirs um leiðréttingu og afsökun. Heyrði ekkert frekar frá honum fyrr en ég fékk stefnu og nú er mér gert að greiða Jóni Ásgeiri 200 þús. kr. í miskabætur fyrir „ólögmæta meingerð gegn æru“ hans þrátt fyrir hina opinberu leiðréttingu.“
Við aðalmeðferð málsins við héraðsdóm sagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, að viðbrögð Björns hefðu verið ófullnægjandi. Afsökunarbeiðnin í skötulíki og auglýsing sem hann hefði birt í Morgunblaðinu þar sem hún kom fram verið lítil.
Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að við ákvörðun viðurlaga hefði verið litið til þess að Björn leiðrétti ummælin á áberandi hátt og beðist afsökunar á þeim. „Það leiðir hins vegar ekki til þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.“
Hæstiréttur segir að ummælin hafi verið röng og óviðurkvæmileg. Hins vegar var ekki talin að ummælin, að teknu tilliti til leiðréttingar, opinberrar afsökunar, stöðu Jóns Ásgeirs og þátttöku hans í opinberri umræðu um málefnið hefðu slík áhrif á persónu hans og æru að það fullnægði skilyrðum til miskabóta.
Var því staðfest að ómerkja beri ummælin en kröfum um miskabætur, kostnað vegna birtingar dóms og málskostnað var hafnað.