Leki krufningarskýrslu óheppilegur

Fanginn lést á Litla-Hrauni í maí í fyrra.
Fanginn lést á Litla-Hrauni í maí í fyrra. mbl.is/Júlíus

„Þetta er afar óheppilegt því enginn á að hafa skýrsluna undir höndum nema þeir sem eru bundnir þagnarskyldu um efni hennar,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, um frétt sem birtist í gær unna upp úr krufningarskýrslu fanga sem lést á Litla-Hrauni.

Fréttavefurinn Vísir birti í gær frétt um krufningarskýrslu vegna andláts fanga á Litla-Hrauni í maí á síðasta ári. Í fréttinni segir meðal annars að ekki sé hægt að fullyrða að fanganum hafi verið ráðinn bani. 

Tveir menn, þeir Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson, eru grunaðir um að hafa veitt manninum áverka sem leiddu hann til dauða, en upptaka úr öryggismyndavél fangelsisins sýnir að mennirnir fóru inn í klefa hins látna skömmu áður en hann kenndi sér meins og lést í kjölfarið

Rannsókn málsins stendur enn yfir og hefur það ekki verið sent ákæruvaldi. Ólafur Helgi segist ekki vita hvaða áhrif lekinn, sem kann að vera lögbrot, kunni að hafa á málið. „En það verður að teljast afar óheppilegt að setja alla í þá stöðu sem hafa komið nálægt þessu skjali, að þeim sé ekki treystandi.“

„Kemur sér ekki vel“

Nánar spurður segir hann einungis opinbera starfsmenn og þá sem undirgengist hafa þagnarskyldu hafa haft aðgang að krufningarskýrslunni. Meðal annars ríki þagnarskylda um gögnin hjá verjendum. „Og hver sá sem hefur ákveðið að láta skýrsluna frá sér til blaðamanns eða eitthvað annað, er að setja trúverðugleika allra í hættu. Og kemur sér ekki vel.“

Í frétt Vísis er rætt við verjanda Annþórs Kristjáns og hann sagður hafa borið erindi undir Pál Winkel fangelsismálastjóra og innanríkisráðuneytið vegna þess að skýrslan  liggi fyrir.

Í lögum um lögmenn segir eftirfarandi um þagnarskyldu þeirra: „Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu.“ Þá segir í lögum um meðferð sakamála: „Þagnarskylda hvílir á verjanda um það sem skjólstæðingur hans kann að hafa trúað honum fyrir um afstöðu sína til brots þess sem um er að tefla, svo og um önnur þau atriði sem hann hefur komist að í starfa sínum og ekki eru almenningi þegar kunn.“

Þá má geta þess að verjandi Barkar kvartaði undan því á fyrri stigum málsins að gögnum væri lekið í fjölmiðla. Hann velti þá fyrir sér hvort réttarríkið væri á villigötum, en þá hafi verið vitnað í skýrslu yfir Berki í fréttatíma.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður
Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert