Höfundar, flytjendur og framleiðendur íslenskrar tónlistar, kvikmynda og bóka standa að sameiginlegu átaki þar sem Íslendingar eru hvattir til að nota löglegar netsíður við neyslu á hugverkum. Í fyrra var sala á íslenskri tónlist minni en árið þar áður og aðsókn í kvikmyndahús hefur minnkað.
Í fyrra var sala á íslenskri tónlist um 5% minni en árið þar áður og þá hefur verið mikill samdráttur í aðsókn að kvikmyndahúsum en gestir þeirra í fyrra voru ríflega 1.430.000 og hafði fækkað um 260 þúsund frá árinu 2009 þegar þeir voru 1.690.000.
Í kynningarfundi vegna átaksins var sérstaklega rætt um viðhorf Íslendinga til að hlaða niður erlendum hugverkum sem sést berlega á sölutölum en á árunum 2001-2011 dróst sala á erlendum geisladiskum saman um 77%.
Á næstunni munu birtast auglýsingar og hvatningarskilaboð til neytenda í fjölmiðlum um að fara réttar boðleiðir í neyslu á hugverkum en hægt er að sjá auglýsingarnar á vefnum tonlistogmyndir.is.