Steingrímur: „Makríllinn fær ekki ókeypis hádegisverð“

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, var gestur í morgunþættinum Today hjá BBC 4 í dag þar sem hann ræddi makríldeiluna við fréttamenn breska útvarpsins. Hann sagði m.a. að makríllinn geti „ekki verið hér og fengið ókeypis hádegisverð“ og að Ísland verði að fá úthlutað sanngjörnum kvóta.

Þá segir hann að það sé afar ósanngjarnt að menn bendi einfaldlega á Ísland og Færeyjar sem sökudólg í deilunni.

Fréttamenn BBC spurðu Steingrím hvort hann væri sammála því að rót makríldeilunnar mætti rekja til aukinna veiða Íslendinga og Færeyinga. Steingrímur sagði að það mætti snúa þessu alveg við og líta á ákvörðun Evrópusambandsins og Noregs um að skammta sér einhliða 90% kvótans sem stóra vandamálið.

Hann segir að það sé enginn grundvöllur að lausn deilunnar að skilja eftir tæp 10% fyrir önnur strandríki, þ.e. Ísland, Færeyjar og Rússland.

Steingrímur ítrekaði þá afstöðu sína að löndin beri öll sameiginleg ábyrgð og að ekkert gagn sé í því að hver bendi á annan.

Ráðherrann viðurkennir að þetta sé mjög óheppilegt og að menn verði að finna lausn á deilunni. Það verði menn hins vegar að gera með sanngirni að leiðarljósi.

Um 30% makrílstofnsins í íslenskri lögsögu

Þá var Steingrímur spurður hvers vegna Íslendingar hefðu ekkert veitt af makríl árið 2005 en nú veiði þeir yfir 150 þúsund tonn af makríl í dag. Fréttamaður BBC sagði að málið liti þannig út Íslendingar og Færeyingar hefðu einhliða ákveðið að hefja makrílveiðar.

„Þetta er mjög einhliða sýn á málið,“ sagði Steingrímur og bætti við að Ísland hafi löngum veitt eitthvað lítilræði af makríl, t.d. hafi makríll verið meðafli við síldveiðar.

Aðalatriðið sé, að á undanförnum árum hafi orðið meiriháttar breytingar á göngu makríls sem hafi í fært sig inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Um gríðarlegt magn sé að ræða. Menn telji að um 1,5 milljónir tonna af makríl hafi verið í íslenskri lögsögu  á síðasta ári. Um 30% af öllum makrílstofninum hafi verið við Ísland í leit að fæðu og það hafi mikil áhrif á lífríkið.

Ráðherrann bendir að á að við þessar aðstæður fái Ísland stöðu strandríkis samkvæmt alþjóðalögum og eigi rétt á því að fá sanngjarnan hluta af kvótanum.

„Því  miður, þá getum við ekki haft makrílinn hér í svona miklum mæli; að hann fái hér frítt fæði og húsnæði,“ sagði Steingrímur.

Menn verða að vera sveigjanlegir

Fréttamaður BBC spurði Steingrím út í ummæli sambands skoskra útvegsmanna sem saka Íslendinga og Færeyinga um að stunda  rányrkju og fullyrðingar breskra ráðamanna um að veiðar þeirra dragi úr sjálfbærni stofnsins.

Steingrímur segir að það sama megi segja um einhliða ákvörðun ESB og Norðmanna, þ.e. að hún ógni sjálfbærni stofnsins. Menn verði að horfa á heildarmyndina út frá þeim miklu breytingum sem hafa orðið á göngu makríls.

„Enginn getur lengur neitað því að Ísland nýtur réttinda sem strandríki samkvæmt alþjóðalögum. En spurningin er hvernig leysum við þetta,“ sagði Steingrímur og bætti við að menn verði að vera sveigjanlegir í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið vegna gróðurhúsaáhrifa og hlýnunar sjávar.

Steingrímur segir ljóst, að hlutur Íslands, Færeyja og Rússlands sé allt of rýr samanborið við makrílkvóta ESB og Norðmanna. Það sé enginn grundvöllur að lausn að Ísland, Færeyjar og Rússland fái 10% en hinir 90%.

Ósanngjarnt að benda á Ísland sem sökudólg

Steingrímur var spurður hvaða hlutfall hann vilji sjá. Hann nefndi sem dæmi að Rússar hefðu lagt til að þeir fengu 10% kvótans. Það myndi þýða 0% fyrir Ísland og Færeyjar miðað við núverandi stöðu.

„Við eigum að fá okkar sanngjarna hlut sem byggist — á meðal annarra atriða — á því mikla magni sem er inni á okkar hafsvæði og þeim áhrifum sem þetta hefur á okkar lífríki. Við þurfum mögulega að draga úr veiðum á öðrum tegundum vegna innrásar makrílsins. Hann getur ekki verið hér og fengið ókeypis hádegisverð,“ sagði Steingrímur.

Hér má hlýða á viðtalið (hefst 2:41:00).

Skjáskot af heimasíðu BBC 4.
Skjáskot af heimasíðu BBC 4.
Makríldeilan er enn í hnút.
Makríldeilan er enn í hnút. mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert