Norsku skipverjunum sleppt

Týr vísaði norska loðnuveiðiskipinu Manon til hafnar á þriðjudag.
Týr vísaði norska loðnuveiðiskipinu Manon til hafnar á þriðjudag. Ljósmynd/Af vef Landhelgisgæslunnar

Áhöfn norska loðnuveiðiskipsins Manon var frjálst að fara af landi brott í gærkvöld eftir að búið var að taka skýrslu af skipstjóranum vegna gruns um ólöglegar veiðar. Var þeim gert að landa aflanum á Eskifirði þar sem hann var vigtaður en lögreglan vill ekki tjá sig að sinni um hve mikið hann vó umfram uppgefinn afla.

Grunur um ólöglegar veiðar Norðmannanna vaknaði við eftirlit Landhelgisgæslunnar, en varðskipsmenn á Tý fóru um borð í Manon á miðunum fyrir austan land þegar Manon var á burtleið úr lögsögunni. Mælingar varðskipsmanna leiddu í ljós að afli um borð virtist talsvert umfram þau 600 tonn sem skipið hafði tilkynnt um að það hefði veitt innan íslensku efnahagslögsögunnar. Var skipinu vísað til hafnar á Eskifirði á þriðjudagskvöld í fylgd varðskipsins.

Nemur sektargreiðslum

Rannsóknarlögreglan á Eskifirði yfirheyrði skipstjórann fram á kvöld í gær og var skipið ásamt áhöfn kyrrsett á meðan. Að sögn Elvars Óskarssonar, rannsóknarlögreglumanns á Eskifirði, er rannsókninni að ljúka af þeirra hálfu og verður málið þá sent til ákæruvaldsins, sem í þessu tilfelli er lögreglustjórinn á Eskifirði. Má búast við að það verði gert í næstu viku.

Áður hefur komist upp um ólöglegar veiðar erlendra skipa við Íslandstrendur, t.d. norska skipið Ny Argo sem veiddi á vernduðu svæði við Skeiðarárdýpi fyrir tæpu ári. Elvar segist þó ekki þekkja önnur dæmi um ólöglegar veiðar vegna umframaafla. 

Samkvæmt lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands ber þeim skylda til að tilkynna Landhelgisgæslunni um magn afla og tegundir um borð í skipinu. Brot gegn ákvæðum þessara laga varða sektargreiðslum á bilinu 400 þúsund til 4 milljónum króna eftir eðli og umfangi brotsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert