Í bókun bæjarráðs kemur jafnframt fram að bent hafi verið á að Vestmannaeyjabær hafi ekki sérstaklega fjallað um það þegar bátar eða aflaheimildir hafi verið keyptar til Eyja. „Öllum má ljóst vera að Vestmannaeyjabæ er eingöngu ætlað lögbundið hlutverk þegar kvóti og skip eru seld frá Vestmannaeyjum en ekki þegar hann er keyptur til Eyja. Vestmannaeyjabær vísar því til föðurhúsa öllu tali um að hann beri kápuna á báðum öxlum og hafi eitt viðhorf þegar kvóti er keyptur til Vestmannaeyja og annað þegar kvóti er seldur þaðan. Það er einfaldlega annarra sveitarfélaga að svara fyrir það ef slíkt hefur ekki verið gert þegar kvóti hefur verið keyptur til Vestmannaeyja. Slíkt sviptir Vestmannaeyjabæ vart réttinum til að gæta lögvarinna réttinda sveitarfélagsins og íbúa þess,“ segir í bókun bæjarráðs.
Líkt og fram kom í fréttum í lok ágúst fól salan í sér fullt skuldauppgjör við Landsbankann. Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, sagði af því tilefni að fjölskylda hans hefði helst viljað fá að reka áfram útgerð í Vestmannaeyjum.
„Ég hef allt frá haustinu 2008 glímt við miklar skuldir við Landsbankann sem að mestu urðu til við kaup á hlutum í bankanum. Ég var þar eitt margra fórnarlamba grófrar markaðsmisnotkunar eins og síðar hefur komið á daginn. Ég hef streist við að halda félaginu og standa skil á skuldunum við bankana en hlýt nú að horfast í augu við að það mun ekki takast. Ég á því engan annan kost en að selja hluti mína í félaginu enda blasir við að áform um aukna gjaldheimtu af útveginum mun skerða rekstrarhæfi útgerðarfélaga og þá ekki síst þerra minni.“