Ákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, skuli vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar er óskýrt og getur haft ófyrirséð áhrif, taki nýja stjórnarskráin að óbreyttu gildi.
Þetta er mat Laganefndar Lögmannafélags Íslands sem fellst á það meginsjónarmið að æskilegt sé að gera stjórnarskrána aðgengilegri þegnum landsins. Hins vegar sé einboðið að gera þurfi frekari breytingar á frumvarpinu umfram þær tillögur sem sérfræðingahópur hafi lagt fram áður en hægt sé að samþykkja það sem stjórnskipunarlög.
Lagnefndin bendir meðal annars á þá óvissu sem hljótist af orðalagi 34. greinar frumvarpsins um að til auðlinda í þjóðareign teljist náttúrugæði. „Miðað við orðalagið getur þarna verið um að ræða hvers kyns gæði, jafnvel sólarljós, andrúmsloft o.s.frv. Svo víðtæk skilgreining þess sem getur talist til auðlinda í þjóðareign getur haft ófyrirséð áhrif, t.d. gæti verið hægt að takmarka nýtingu sólarljóss á Íslandi.“
Fjallað er um umsögn Lögmannafélagsins í Morgunblaðinu í dag, en henni var skilað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær en hún er 10 blaðsíður og nær til margra greina.