Bjartsýnisflokkurinn í óvissu

Einar Gunnar Birgisson fyrrverandi talsmaður Bjartsýnisflokksins.
Einar Gunnar Birgisson fyrrverandi talsmaður Bjartsýnisflokksins. mbl.is

Algjör óvissa er um hvort Bjartsýnisflokkurinn verði meðal nýrra framboða í Alþingiskosningunum í vor. Þetta segir Einar Gunnar Baldvinsson meðlimur og fyrrverandi talsmaður flokksins.

Bjartsýnisflokkurinn sótti um og fékk úthlutað listabókstafnum E hjá innanríkisráðuneytinu og er hann meðal fimm nýrra flokka sem fengið hafa listabókstaf. Einar Gunnar segir þetta hafa leitt til misskilnings um að flokkurinn bjóði fram í vor.

„Það eru greinilega margir sem líta svo á að Bjartsýnisflokkurinn verði með í kosningunum en það er alls ekki rétt, það er algjör óvissa með það. Það að fá listabókstafinn er bara fyrsta skrefið, næsta skref væri að gera lista í hverju kjördæmi fyrir sig, safna frambjóðendum og fá listana samþykkta en það er ekki farið af stað hjá okkur,“ segir Einar Gunnar.

Sjálfur sagði Einar Gunnar sig frá flokksstarfinu í október, að sögn vegna þess að persóna hans var orðin of áberandi. Hann segir málið nú stranda á því að ekki hafi stigið fram fólk í félaginu til að taka við því hlutverki að drífa framboðið áfram.

Einar Gunnar segist jafnframt vera hugsi yfir því hvort rétt væri af flokkinum og bjóða fram og hugsanlega taka fylgi frá öðrum flokkum sem eru „ábyrgir í innflytjendamálum“ eins og hann orðar það, án þess að ná manni á þing. 

„Þannig að ég get ekki spáð fyrir um hvað gerist, en eins og staðan er í dag er ekki útlit fyrir að það verði framboð. Það er alls ekki útilokað, því það tekur svo sem ekki langan tíma að setja saman lista, en ég get ekki sagt af eða á hvort það verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert