Hóta að loka höfnum fyrir skipum Eimskips

Frá athafnasvæði Eimskips við Sundahöfn.
Frá athafnasvæði Eimskips við Sundahöfn.

Í kringum áramót 2009 og 2010 fór að bera á því að hælisleitendur hér á landi gerðu skipulagðar tilraunir til að komast um borð í skip Eimskips í Sundahöfn, sem halda uppi áætlunarsiglingum milli Íslands og N-Ameríku með það í huga að komast þar óleyfilega í land. Þrátt fyrir ítrekaða fundi skipafélagsins með yfirvöldum hérlendis um fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda hefur nánast ekkert áunnist til að stöðva flóttatilraunir hælisleitenda.  

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu.

„Þetta alvarlega vandmál hefur skapað mikil vandræði því að bandaríska strandgæslan hótar að krefjast hækkunar vástigs í íslenskum höfnum með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Að öðrum kosti verði þarlendum höfnum lokað fyrir Ameríkuskipum félagsins ef ekkert verð gert til að stöðva þessa öfugþróun sem nú ógnar siglingum til Bandaríkjanna,“ segir í yfirlýsingunni.

Eimskip hefur komið upp öflugum og dýrum eftirlitsbúnaði við Sundahöfn og ráðið sérstaka öryggisverði er skilað hefur tilætluðum árangri til þessa. 

„Áfram reyna hælisleitendur að laumast um borð í skipin hér og aldrei að vita hvenær þeim tekst ætlunarverk sitt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Rót vandans virðist liggja í daufum aðgerðum íslenskra stjórnvalda við úrlausn málefna hælisleitenda sem koma hingað til lands í auknu mæli. Sumir þeirra ætla sér hvað sem það kostar að komast áfram til Bandaríkjanna eða Kanada með öllum tiltækum ráðum.

Stjórn AMIS, Ameríska-íslenska verslunarráðsins, hvetur íslensk stjórnvöld að grípa þegar í stað til raunhæfra aðgerða til að stöðva þessa óheillaþróun áður en bandarísk stjórnvöld stöðva vöruflutningaskipin. Slíkt myndi hafa ófyrirsjánlegar afleiðingar og valda verulegu tekjutjóni fyrir íslenska inn- og útflytjendur og í raun þjóðina alla. Aðgerðir í þessu máli þola enga bið,“ segir í yfirlýsingu Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert