Ísland mun geta staðið við verstu mögulegu niðurstöðu Icesave-dómsins, jafnvel þótt það muni kosta um 20% af landsframleiðslu. Þetta er haft eftir Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna.
Segir hann að greiningar leiði það í ljós að hækkun skulda sem þessu nemur muni þrátt fyrir allt halda skuldastigi ríkissjóðs innan viðráðanlegra marka.
Á mánudaginn næstkomandi mun EFTA-dómstóllinn fella dóm í Icesave-málinu. Dómnum er ætlað að kveða úr um hvort Ísland braut gegn skyldum sínum samkvæmt regluverki EES-svæðisins þegar innstæðueigendum Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi voru ekki greiddar út lágmarkstryggingar á tilsettum tíma eftir fall bankans.
Í frétt Bloomberg segir að dómurinn geti leitt til þess að Ísland þurfi í versta falli að greiða 335 milljarða króna í bætur til Hollands og Bretlands, en það er samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á verstu mögulegu niðurstöðunni.
„Þrátt fyrir högg af þessari stærðargráðu, þá væri fjárhagsstaðan enn sjálfbær,“ segir Rozwadowski í viðtalinu. Segir hann að þrátt fyrir svona mikla aukningu skulda myndi skuldahlutfallið enn halda áfram að lækka á komandi árum.