Eins konar kapphlaup er nú í gangi á milli Íslendinga og Svisslendinga um það hvor þjóðin verði fyrri til þess að ganga frá fríverslunarsamningi við Kína en um verður að ræða fyrsta samning um fríverslun sem Kínverjar gera við evrópskt ríki.
Fram kemur á fréttavef kínverska dagblaðsins China Daily í dag að viðræður við bæði Sviss og Ísland séu komnar á lokametrana. Í tilfelli Svisslendinga eigi enn eftir að ganga frá viðræðum um landbúnaðarmál en eftir sé að ganga frá nokkrum minniháttar atriðum í viðræðum við Íslendinga sem ekki tengist fríverslunarviðræðunum sjálfum. Viðræðurnar við Sviss hafi eftir sem áður gengið hraðar fyrir sig.
Haft er eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að stefnt sé að undirritun fríverslunarsamnings á milli Íslands og Kína innan eins til tveggja mánaða samhliða fyrirhugaðri opinberri heimsókn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, til landsins í febrúar eða mars.
Til þessa hefur Kína aðeins gert fríverslunarsamning við eitt vestrænt ríki, Nýja Sjáland, en haft er eftir Chen Deming, viðskiptaráðherra Kína, að kínversk stjórnvöld stefni að því að ganga frá slíkum samningum við nokkur ríki á þessu ári og þar á meðal Ísland.
Hins vegar kemur fram í fréttinni að þrátt fyrir mikinn áhuga Íslendinga og Svisslendinga á fríverslunarsamningi við Kína sé ekki sama áhuga fyrir að fara hjá Evrópusambandinu. Kínverjar hafi lagt til að hafin yrði vinna við að kanna grundvöll fyrir slíkar viðræður en engar undirtektir fengið í Brussel.
Haft er eftir John Clancy, talsmanni Evrópusambandsins í viðskiptamálum, að sambandið leggi þess í stað aðeins áherslu á að ná samningi við Kínverja um fjárfestingar. Slíkur samningur sé forsenda þess að hægt verði að skoða aðra möguleika, en fram kemur í fréttinni að samhliða efnahagserfiðleikum evrusvæðisins hafi Evrópusambandið í auknum mæli lagt áherslu á efnahagslega verndarstefnu.