Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra né Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra telja að það reyni á ákvæði í samningum kröfuhafa gamla Landsbankans þess efnis að þeir verði skaðlausir af stjórnvaldsákvörðunum sem kunna að rýra eignasafn bankans.
Jóhanna sagði á Alþingi í gær að hún teldi fyrirvarana ekki óeðlilega og sagði aðgerðir ríkisvaldsins hingað til hafa verið almennar.
Steingrímur sagðist aðspurður ekki hafa áhyggjur af þessu ákvæði. Hann sagði að afkoma sjávarútvegsins gæfi ekki tilefni til þess að menn hefðu áhyggjur og sagði að væntanlega kæmi í ljós að eignasafnið væri það verðmætt að bréfið yrði að mestu uppgreitt nú í marslok þegar Landsbankinn gæfi út skilyrt skuldabréf vegna þessa sem talið er að geti orðið allt að 92 milljarðar króna.
Steingrímur gat ekki svarað því hvort hann myndi leggja fram kvótafrumvarp á þessu þingi.