Val á tvo framboðslista Sjálfstæðisflokksins fer fram á morgun, í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi, en um er að ræða síðustu prófkjör á vegum flokksins fyrir þingkosningarnar sem fram fara í apríl. Fimmtán manns eru í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og níu manns í Norðausturkjördæmi. Þar af eru allir þingmenn kjördæmanna sem náðu kjöri í síðustu þingkosningum 2009.
Barist verður um oddvitasætið í báðum kjördæmunum en fjórir sækjast eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og tveir í Norðausturkjördæmi. Þannig sækjast alþingismennirnir Ragnheiður Elín Árnadóttir og Árni Johnsen eftir fyrsta sæti í því fyrrnefnda auk Kjartans Þ. Ólafssonar, fyrrverandi alþingismanns. Ennfremur sækist Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur, eftir forystusæti á listanum. Ragnheiður Elín er núverandi oddviti listans.
Þess utan eru í framboði Ásmundur Friðriksson, fyrrverandi bæjarstjóri, Friðrik Sigurbjörnsson, nemi og varabæjarfulltrúi, Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, Hulda Rós Sigurðardóttir, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu, Magnús B. Jóhannesson framkvæmdastjóri, Magnús Ingberg Jónsson atvinnurekandi, Oddgeir Ágúst Ottesen hagfræðingur, Reynir Þorsteinsson, löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður, Vilhjálmur Árnason lögreglumaður og Þorsteinn M. Kristinsson, lögreglumaður og sveitarstjórnarmaður.
Tveir alþingismenn sækjast eftir að leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þeir Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson. Kristján er núverandi oddviti listans en Tryggvi var í öðru sæti fyrir kosningarnar 2009. Aðrir í framboði eru Ásta Kristín Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi, Bergur Þorri Benjamínsson viðskiptafræðingur, Erla S. Ragnarsdóttir framhaldsskólakennari, Ingvi Rafn Ingvason tónlistarmaður, Ísak Jóhann Ólafsson framkvæmdastjóri, Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri og Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari.