Þingmenn berjast um forystusætin

Þingmennirnir Ragnheiður Elín Árnadóttir og Árni Johnsen.
Þingmennirnir Ragnheiður Elín Árnadóttir og Árni Johnsen. mbl.is

Val á tvo framboðslista Sjálfstæðisflokksins fer fram á morgun, í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi, en um er að ræða síðustu prófkjör á vegum flokksins fyrir þingkosningarnar sem fram fara í apríl. Fimmtán manns eru í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og níu manns í Norðausturkjördæmi. Þar af eru allir þingmenn kjördæmanna sem náðu kjöri í síðustu þingkosningum 2009.

Barist verður um oddvitasætið í báðum kjördæmunum en fjórir sækjast eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og tveir í Norðausturkjördæmi. Þannig sækjast alþingismennirnir Ragnheiður Elín Árnadóttir og Árni Johnsen eftir fyrsta sæti í því fyrrnefnda auk Kjartans Þ. Ólafssonar, fyrrverandi alþingismanns. Ennfremur sækist Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur, eftir forystusæti á listanum. Ragnheiður Elín er núverandi oddviti listans.

Þess utan eru í framboði Ásmundur Friðriksson, fyrrverandi bæjarstjóri, Friðrik Sigurbjörnsson, nemi og varabæjarfulltrúi, Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, Hulda Rós Sigurðardóttir, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu, Magnús B. Jóhannesson framkvæmdastjóri, Magnús Ingberg Jónsson atvinnurekandi, Oddgeir Ágúst Ottesen hagfræðingur, Reynir Þorsteinsson, löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður, Vilhjálmur Árnason lögreglumaður og Þorsteinn M. Kristinsson, lögreglumaður og sveitarstjórnarmaður.

Tveir alþingismenn sækjast eftir að leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þeir Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson. Kristján er núverandi oddviti listans en Tryggvi var í öðru sæti fyrir kosningarnar 2009. Aðrir í framboði eru Ásta Kristín Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi, Bergur Þorri Benjamínsson viðskiptafræðingur, Erla S. Ragnarsdóttir framhaldsskólakennari, Ingvi Rafn Ingvason tónlistarmaður, Ísak Jóhann Ólafsson framkvæmdastjóri, Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri og Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari.

Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson.
Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert