„Þetta er farið að bitna verulega á börnunum“

Úr grunnskólastarfi.
Úr grunnskólastarfi. mbl.is/Golli

Skólastjórar tveggja grunnskóla á Suðurnesjum hafa sagt upp störfum sínum vegna þess að þeir treysta sér ekki til þess að reka skólana með því fjármagni sem þeim er úthlutað. „Þetta er farið að bitna verulega á möguleikum barnanna. Ég vil ekki bera ábyrgð á því,“ segir Jóhann Geirdal, skólastjóri Holtaskóla í Reykjanesbæ, sem sagði upp störfum sínum í gær.

„Mér tókst ekki að halda rekstrinum innan áætlunar á síðasta ári og ég treysti mér ekki til þess á því næsta. Ef starfsmaður getur ekki haldið sig innan áætlunar, þá er eðlilegt að hann fari,“ segir Jóhann.

Sama krónutala og árið 2009

Jóhann fundaði með fjármála- og fræðslustjóra bæjarins í gær þar sem farið var yfir fjárhagsstöðu skólans og fyrirhugaðan niðurskurð. Hann segist ekki hafa verið sáttur við þær aðgerðir sem þar voru lagðar til varðandi niðurskurð. 

„Nú er komið að því marki að við erum komin að krítískum punkti. Við erum farin að skerða þjónustu, þetta er farið að bitna á raunverulegum möguleikum barnanna til náms. Ég treysti mér ekki sem skólastjóri til að halda því áfram,“ segir Jóhann. „Í ár erum við að fá svipaða krónutölu á nemanda og við fengum árið 2009, þrátt fyrir verðbólgu og launahækkanir. Við erum að gera hérna stórátak í skólamálum og það hefur verið virkilega gaman að vinna að því. En til þess að ná árangri, þá þarf skóli að sinna öllum börnum, bæði þeim sem þurfa viðbótarstuðning og þeim sem eru afburðadugleg. Það höfum við reynt að gera.“

Hvorki er hægt að hrófla við kennslu né fjölda kennslustunda; hvort tveggja er lögbundið samkvæmt aðalnámskrá. „En við höfum stækkað hópa, fækkað skiptistundum og núna hefur dregið úr stuðningi og viðbótaraðstoð. Ef ég hefði haldið mig innan áætlunar, þá hefði það skerst enn meira.“

Mismunandi framlag eftir sveitarfélögum

Framlag á hvern nemanda er misjafnt eftir sveitarfélögum og einstökum skólum innan þeirra. Á töflu á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga má sjá rekstrarkostnað á hvern nemanda fyrir árið 2011. Þar sést að hann er afar misjafn. Þar sést líka að rekstrarkostnaður hvers nemanda í Holtaskóla er talsvert undir landsmeðaltali.

„Ef við fengjum fjárhæð til skólans sem væri nálægt meðaltali landsins á hvern nemanda væri staðan allt önnur. En við erum undir því. Auðvitað er ekkert óeðlilegt að þetta sé mismunandi, ýmsar ytri aðstæður geta réttlætt að upphæðin sé ekki alltaf sú sama,“ segir Jóhann. „En það er erfitt að reka skólann fyrir þetta framlag.“

„Við höfum reynt að byggja hér upp skóla sem á að vera skóli fyrir alla. En með sama áframhaldi getum við það ekki. Núna er búið að skafa allt utan af beinunum. Það er ekkert eftir og við förum að brjóta einhver bein ef við höldum svona áfram.“

Viðtal mbl.is við Ólaf Loftsson, formann Félags grunnskólakennara

Viðtal mbl.is við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga

Jóhann Geirdal.
Jóhann Geirdal. Víkurfréttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert