Steingrímur líkir sér við Castro

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi á yngri árum og byltingarleiðtoginn …
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi á yngri árum og byltingarleiðtoginn Fidel Castro. Ljósmyndir/Bjarni J. Eiríksson/Reuters

„Þetta var svona svipuð taktík og Castro og félagar notuðu í Sierra Maestra-fjöllunum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á flokksráðsfundi VG um líkindi með stofnun flokksins og byltingunni á Kúbu. Líkt og Fidel Castro var Steingrímur í forystu við stofnun hins nýja flokks.

Steingrímur hóf þennan hluta ræðunnar á heimspekilegum nótum.

„Við ætlum að halda áfram að takast á við samtímann og framtíðina. Það er það sem stjórnmál snúast alltaf um. Við fáum litlu um það breytt sem liðið er en við getum reynt og eigum að hafa áhrif á framtíðina. Stjórnmál eru alltaf slagur um framtíðina. Því núið líður, augnablikið hverfur og það næsta tekur við og þá er framtíðin komin. Þannig er það. Nú er komin framtíð miðað við það sem ég var að ræða um hérna áðan fyrir 20 sekúndum síðan.“

Fór leynt með fámennið

Hann vék síðan að stofnun VG.

„Fyrir rétt tæpum 14 árum þá kom hópur manna saman - eða þá fór hópur manna að undirbúa sig undir að koma saman hér í Reykjavík - og hann var að svipaðri stærð og þessi hér, að stofna Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Við vorum ekkert óskaplega mörg í byrjun. Við vorum stundum svo fá að við reyndum svona að fara heldur fínt með það, að hópurinn væri kannski ekkert óskaplega fjölmennur ennþá. Þetta var svona svipuð taktík og Castro og félagar notuðu í Sierra Maestra-fjöllunum. Vitið þið hvað þeir voru margir þegar verst lét? Þeir voru víst ekki nema sjö en Batista og co héldu að þeir væru óvígur her. Það var um það sem þetta snerist. En svo bættist í liðið og það sama gerðist hjá okkur.“

„Þegar við hittumst hérna í Reykjavík 5. og 6. febrúar 1999, eitthvað á annað hundrað manns, að þá mældust við með um 1% fylgi. Þessi óstofnaði og enn þá ónefndi flokkur. En fólk hafði orðið vart við að þarna væri einhver hreyfing og sumir vonir farnir að gera það upp við sig að þeir gætu hugsað sér að styðja þetta afl. Einhverjir gætu sagt, til dæmis þeir sem eru reyna að storka okkur núna fyrir dapurlegt gengi í skoðanakönnunum, að þetta hafi ekki litið sérlega glæsilega út. Við vorum ekki að stökkva upp í einhver 20% eins og sum óstofnuð fyrirbæri hafa gert en að vísu horfið aftur,“ sagði Steingrímur og átti greinilega við Samstöðu, fyrrverandi flokk Lilju Mósesdóttur, sem mældist með ríflega 20% fylgi í einni könnun í fyrra en hefur nú hverfandi fylgdi.

„Lögðum af stað frá gólfinu“

Steingrímur sagði annað hafa átt við VG. Íslensk stjórnmál væru óhugsandi án flokks af því tagi.

„Nei, við lögðum af stað frá gólfinu, frá núlli. Við mældust í hálfu prósenti, í einu prósenti, í einu og hálfu prósenti. En ég hef ekki hitt glaðari og vígreifari hóp en þann sem kom þarna saman við þessar aðstæður svo glaðbeittur að fara út í slaginn og takast á við það að láta á það reyna hvort það væri hljómgrunnur fyrir þessari hreyfingu í landinu. Við sögðum alltaf að við vitum að það er tvísýnt og ýmsir voru fúlir út í okkur mörg að vera ekki með í Samfylkingunni en við sögðum bara kjósendur ráða því þá. Vilji þeir að það verði til flokkur, róttækur flokkur til vinstri, umhverfisverndarflokkur, kvenfrelsisflokkur og svo framvegis. Og svarið var já. Það vildu íslenskir kjósendur. Þeir hafa viljað það fram að þessu og þeir munu vilja það, vegna þess að íslensk stjórnvöld eru óhugsandi án róttæks vinstri flokks. Þau verða aldrei þannig. Það verður alltaf til.

Og þau eru líka að mínu mati óhugsandi án umhverfisverndarflokks og þau eru óhugsandi án femínistaflokks, án kvenfrelsisflokks, því íslensk stjórnmál verða ekkert þannig að hann verði ekki til staðar. Það verður séð um það ... Og það sem við höfum staðið fyrir í friðarbaráttu og mörgu, mörgu fleiru kallar á það að slíkur flokkur verði til og hann verður til. Ég ætla að segja það við ykkur að lokum að ég er algerlega sannfærður um það að Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun verja stöðu sína í næstu alþingiskosningum mun betur en skoðanakannanir benda núna til. Það mun gerast. Og við munum hafa styrk til þess að halda okkar hlutverki áfram, hvort sem það verður í stjórn eða stjórnarandstöðu, í vörn og sókn. Takk fyrir,“ sagði Steingrímur og uppskar dynjandi lófatak sem stóð yfir í um 23 sekúndur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert