Ekki verður hægt að telja atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í kvöld líkt og til stóð vegna veðurs. Búið er að loka flugvellinum í Vestmannaeyjum og verður ekki flogið þaðan fyrr en á morgun. Byrjað verður að telja atkvæði á hádegi á morgun en ekki er ljóst hvenær fyrstu tölur muni birtast.
Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi var einnig með prófkjör í dag en ekki verður byrjað að telja atkvæði fyrr en í fyrramálið. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort hægt verður að koma öllum atkvæðum til Akureyrar þar sem talningin fer fram þar sem vonskuveður er víða.
Kjörstöðum var lokað í báðum kjördæmum klukkan 18 og ekki er vitað hver kjörsóknin var.