Ökumenn áminntir fyrir að skafa ekki

Töluvert hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru ökumenn …
Töluvert hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru ökumenn minntir á að skafa vel af bílum sínum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Töluvert hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í nótt og varar lögreglan við því að mikil hálka leynist undir snjónum á götum og göngustígum. Er fólk því hvatt til að fara varlega af stað út í umferðina í dag.

Tvö umferðaróhöpp urðu í höfðunum í Reykjavík í nótt. Ekki urðu slys á fólki, en lögregla telur hálku líklega orsök. Lögreglan þurfti að áminna nokkra ökumenn í nótt sem skófu ekki eða illa snjóinn af hliðarrúðum, afturrúðu, fram- og afturljósum bílsins. Vill lögregla því minna fólk á að skafa vel snjóinn af bílum sínum.

Víða hálka eða snjóþekja

Að sögn Vegagerðarinnar eru hálkublettir á Reykjanesbraut en hálka og snjókoma á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka er einnig á flestum vegum á Suðurlandi. 

Snjóþekja er á Holtavörðuheiði og í Bröttubrekku sem og á Snæfellsnesi og víðar á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða hálkublettir en þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi er hálka víðast hvar en þó er snjóþekja á Víkurskarði.

Það er sömuleiðis vetrarfærð á Austur- og Suðausturlandi, víða hálkublettir eða hálka, jafnvel snjóþekja á fáfarnari
vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert