VG álykta í lok flokksráðsfundar

Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson

Flokksráðsfundi Vinstri grænna sem hófst í gær lauk nú í hádeginu með því að afgreiddar voru ályktanir m.a. um meðferð aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, um rammaáætlun, alþjóðlega vernd hælisleitenda og fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins.

Bragarbót á málefnum hælisleitenda

Í ályktun flokkráðsins um að náttúran njóti vafans er minnt á að ein af grunnstoðum hreyfingarinnar varði umhverfi og náttúru. „Fundurinn geldur varhug við áformum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu.“

Fundurinn ályktaði einnig um málefni hælisleitenda og fagnaði því að innanríkisráðherra hafi nýverið lagt fram frumvarp til breytinga á útlendingalögum. „Fundurinn telur að þetta verði til þess að bragarbót verði gerð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd“ hér á landi.

Áralangt fjársvelti heilbrigðiskerfisins

Í ályktun um heilbrigðiskerfið segir að flokksráðsfundur fagni því að nú sé loks að myndast svigrúm hjá ríkissjóði til að auka við fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins eftir efnahagshrunið 2008. 

„Vægt er til orða tekið þegar talað er um að kerfið sé veikburða eftir áralangt fjársvelti í tíð fyrri ríkisstjórna og tilraunir þeirra til einkavæðingar. Með áframhaldandi setu vinstristjórnar sem leggur áherslu á velferð verður hægt að búa þannig um heilbrigðiskerfið að það geti vaxið og dafnað og orðið við þeim kröfum sem velferðarsamfélag gerir til þess.“

Aðkoma starfsfólks að rekstri og arði fyrirtækja

Í ljósi þess „að starfsfólk hefur ávallt þurft að taka á sig þrengingar og byrðar þegar illa gengur en aðeins í undantekningartilfellum orðið aðnjótandi velgengni í rekstri fyrirtækja“ ályktar flokksráðsfundur VG að nauðsynlegt sé að reyna að tryggja aðkomu starfsmanna að stjórnun fyrirtækja og hlutdeild í arði.

Engin orkuþurrð á Íslandi

Flokksráðsfundur VG fagnar því að rammaáætlun hafi verið samþykkt. Í ályktun fundarins segir að með rammaáætlun sé komin forsenda til skynsamlegri auðlindanýtingar. Slíka heildarsýn hefði þurft fyrir mörgum áratugum til að tryggja aðkoma almennings að ákvörðun um nýtingu auðlinda.

„Nauðsynlegt er að framhald vinnunnar byggi á forsendum sjálfbærrar þróunar með varúðarregluna að leiðarljósi. Mikilvægt er að tryggja að einkaaðilar geti ekki tekið einhliða ákvarðanir um nýtingu auðlinda sem ættu með réttu að vera eign þjóðarinnar allrar. Fundurinn bendir jafnframt á að Ísland býr ekki við orkuþurrð,“ segir í ályktuninni.

Afstaða verði tekin til þjóðaratkvæðis um ESB

Í aukaályktun um Evrópusambandið sem samþykkt var á fundinum og mbl.is sagði frá í gær lýsir fundurinn stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stöðva frekari vinnu við mótun samningsafstöðu  vegna viðræðnanna við ESB, að ekki verði haldin ríkjaráðstefna um málefni Íslands á útmánuðum og að haldið verði á öðrum samskiptum þannig að ekki kalli á frekari ákvarðanatöku fram yfir kosningar.

Þá beinir flokksráðið því til landsfundar Vinstrihreyfingarinnar sem haldinn verður í febrúar að taka afstöðu til þess hvernig flokkurinn skuli standa að framhaldi málsins. Flokksráðið telur mikilvægt að m.a. verði lagt fyrir landsfund að taka afstöðu til þess hvort leita eigi til þjóðarinnar um hvort stefna skuli að aðild að ESB og hvort gera eigi samþykki hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu að skilyrði fyrir því að VG standi að frekari viðræðum á nýju kjörtímabili. 

Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
Flokksráðsfundur VG
Flokksráðsfundur VG mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert