Vill að allir geti áfrýjað til Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands .
Hæstiréttur Íslands . mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur ómerkti ummæli Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra um Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Baugs. Ummælin birtust í bókinni Rosabaugur yfir Íslandi sem fjallar um Baugsmálið svokallaða og kom út árið 2011.

Málið snerist um þau ummæli Björns að Jón Ásgeir hefði fengið dóm fyrir fjárdrátt í tengslum við Baugsmálið þegar hið rétta var að hann var sakfelldur fyrir bókhaldsbrot. Lögmaður Jóns Ásgeirs fór þess á leit við Björn að ummælin yrðu leiðrétt, Jón Ásgeir beðinn afsökunar og auglýst og óseld eintök yrðu tekin úr sölu.

Afsökunarbeiðni Björns birtist í Morgunblaðinu og á heimasíðu hans og auk þess voru ritvillur, sem athugasemdir höfðu verið gerðar við, lagfærðar í annarri prentun bókarinnar skömmu síðar. Í málflutningi í héraðsdómi kom fram að ekki hefði verið á valdi Björns að taka óseldar bækur úr sölu heldur útgefandans.

Í mars síðastliðnum dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Björn til að greiða Jóni Ásgeiri 200 þúsund krónur í miskabætur.

Björn áfrýjaði dómnum. Sækja þurfti um áfrýjunarleyfi frá Hæstarétti til að áfrýja málinu þar sem upphæðin sem Björn var dæmdur til að greiða Jóni Ásgeiri í héraðsdómi var undir viðmiðum um þau mál sem heimilt er að áfrýja til Hæstaréttar. Árið 2012 var miðað við mál sem vörðuðu fjárkröfur eða sektir lægri en 705.325 krónur.

Afsökunin lá þegar fyrir

Jón Magnússon, lögmaður Björns, sagði að undanþágan til áfrýjunar hefði verið veitt á þeim forsendum að ákveðin grundvallaratriði þörfnuðust skoðunar. „Í þessu tilviki var vísað í að beðist hefði verið afsökunar um leið og lögmaður stefnanda fór fram á það bréflega. Ummælin voru ómerkt, dregin til baka, leiðrétt í bókinni og því ekki réttarágreiningur í málinu. Á slíkt hafði ekki verið reynt í áratugi í íslensku réttarfari,“ segir Jón Magnússon, lögmaður Björns.

„Ég taldi að þessi angi ríkisvaldsins, það er að segja dómsvaldið, þyrfti ekki að skipta sér af því þar sem þegar var búið að ómerkja ummælin,“ segir Jón ennfremur.

Vill að allir geti áfrýjað

Hægt er að áfrýja máli til Hæstaréttar ef fjárkrafan nær viðmiðunarmörkunum eins og fyrr var greint frá eða málið hefur hlotið áfrýjunarleyfi frá Hæstarétti. Jóni finnst ekki allskostar rétt að úrskurðarvaldið til áfrýjunar ætti að liggja hjá Hæstarétti líkt og er í núverandi fyrirkomulagi.

„Ég vildi að allir gætu áfrýjað öllum málum ef það kostaði ákveðna upphæð. Þá gæti fólk áfrýjað þess vegna út af tíu krónum ef það teldi það mikil prinsipp í málinu. Þegar máli er áfrýjað er kostnaður ríkisvaldsins í meðferð málsins mikill. Þess vegna er verið að girða fyrir óþarfa málskot með því að setja þessi mörk,“ segir Jón.

Hann bendir á að einnig væri möguleiki að fela tilteknu dómstólaráði að skera úr um hvort málinu skyldi áfrýjað eða ekki.

Jón segir að í þessu tiltekna máli hafi reynt á grundvallarrétt til tjáningarfrelsis og málfrelsis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert