„Fremur til þess að útskýra málin“

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.
Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður. mbl.is

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur upp hanskann fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og segir óskiljanlegt að þingflokksformenn stjórnarflokkanna haldi því fram að ummæli sem forsetinn lét falla á Alþjóðaefnahagsþinginu í Davos séu til þess fallin að rugla alþjóðasamfélagið.

Þær Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboð, sögðu í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að Ólafur skapaði óvissu um utanríkisstefnu Íslands með því að tala fyrir annarri utanríkisstefnu í Davos en stefnu ríkisstjórnarinnar. Sagði Oddný það rugla alþjóðasamfélagið.

Forsetinn gagnrýndi meðal annars bresk stjórnvöld og þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, fyrir að hafa beitt hryðjuverkalögum gegn Íslendingum í kjölfar bankahrunsins. Þá sagðist hann ekki gera ráð fyrir að Ísland ætti eftir að ganga í Evrópusambandið og lýsti þeirri skoðun sinni að bankar væru eins og hver önnur fyrirtæki og ættu að fara í þrot ef þeim væri illa stýrt. Þá gagnrýndi hann harðlega sjávarútvegsstefnu sambandsins.

„Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var örugglega að túlka skoðanir langflestra Íslendinga þegar hann sagði nýverið skoðun sína á Gordon Brown fyrrv. forsætisráðherra Breta og því níðingsverki Breta að setja okkur á lista með hryðjuverkasamtökum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.

Hann segir að þess vegna sé óskiljanlegt að Oddný og Álfheiður skuli gagnrýna ummæli Ólafs og telja þau rugla alþjóðasamfélagið. „Ég hefði haldið að þessi skorinorðu ummæli forsetans væru miklu fremur til þess fallin að útskýra málin fyrir alþjóðasamfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert